Gæti dregið til tíðinda við Svartsengi í lok mánaðar

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir greinilegt landris beggja vegna við misgengið.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir greinilegt landris beggja vegna við misgengið. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir möguleikann vera fyrir hendi að það dragi til tíðinda í jarðhræringum á Reykjanesskaga þegar nær dregur mánaðarlokum. Athyglisvert sé að sjá hvað gerist þegar landrisið í Svartsengi nái sömu hæð og það náði 10. nóvember.

Hann segir greinilegt landris vera beggja vegna við misgengið eða sigdalinn sem liggur í gegnum Grindavík. „Það er hægt að túlka það þannig að það sé kvika að koma inn í þennan kvikugang eða að það sé áframhaldandi hreyfing kviku – að kvika komi inn þarna einhvers staðar niðri. Eitthvað er að halda þessu við,“ segir Þorvaldur.

Svartsengi.
Svartsengi. mbl.is/Hákon

Hann segir það koma sér á óvart hve jafnt landrisið undir Svartsengi er. „Það er ekkert augljóst að það sé að hægjast eða hraða sér. Það hefur haldist jafnt síðan 10. nóvember.“

Hann segir kvikukerfið ekki vera að slaka á eða jafna sig heldur sé eitthvað að gerast þarna undir. „Þetta landris getur ekki verið nema það sé kvika að koma inn.“

Í kjölfar hræringanna 10. nóvember seig landið í Svartsengi um næstum 30 sentimetra. „Það er búið að ná um helmingnum af því sigi aftur með landrisi. Þetta er nokkuð hraðara en það var áður,“ segir Þorvaldur.

Hann segir að kannski megi búast við því að þegar landrisið komist í svipaða hæð og það hafði náð 10. nóvember geti eitthvað farið að gerast. Það sé hugsanlegt að það sama gerist og þá.

Að öðrum kosti gæti komið gos, eða innskot í einhverja aðra átt. „Það er ekki víst að allt endurtaki sig, en það gæti gerst,“ segir Þorvaldur.

Horfir til 25.-30. nóvember

Spurður hvenær hann telji að landrisið nái sömu hæð og 10. nóvember, segir Þorvaldur það geta gerst dagana 25.-30. nóvember. Er það þó háð því að það haldi sama dampi og það hefur núna. „Kannski nær þrítugasta, myndi ég halda, miðað við þetta ris sem er í gangi núna.“

Svartsengi.
Svartsengi. mbl.is/Arnþór

Spurður hvert kvikan gæti hlaupið komi til þess, segir Þorvaldur erfitt að segja til um það. „Hún gæti farið í áttina að Eldvörpum. Hún gæti líka farið í sama farið aftur.“

Hann segir gliðnunina fara minnkandi suður frá en risið ekki. „Meðan það er innflæði að neðan er erfitt að sjá annað en að þarna byggist upp þrýstingur og á endanum kemur það upp ef þetta heldur áfram.“

Hann útilokar þó ekki að atburðarásin geti einfaldlega tekið enda og ekkert orðið af gosi. „Móðir Jörð er bara þannig. Það er ákveðin óvissa í þessu.“

Þorvaldur útilokar ekkert varðandi kvikuganginn. Það geti vel verið að kvika flæði inn í hann, ef hann var frekar lítill gæti hann hafa storknað.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert