Gæti flætt aftur inn í kvikuganginn

Horft úr norðri yfir Sundhnúkagígaröðina, sem liggur til suðurs að …
Horft úr norðri yfir Sundhnúkagígaröðina, sem liggur til suðurs að Grindavík. Stóra-Skógfell, Sýlingarfell og Þorbjörn hægra megin við miðju. Ljósmynd/Siggi Anton

Líkön benda til þess að kvikan í innskotinu sem myndaði sylluna undir Svartsengi hafi hlaupið í austur að Sundhnúkagígum og í kjölfarið myndað kvikuganginn með þeim miklu umbrotum sem þá urðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni, en áður hefur verið fjallað um að líklega hafi atburðarásin föstudaginn 10. nóvember verið með þessum hætti.

Nýr kvikugangur gæti myndast

Í tilkynningunni nú segir að á meðan landris í Svartsengi haldi áfram, þá megi búast við að kvikan sem er að safnast þar geti hlaupið aftur.

„Við það gæti hún flætt inn í kvikuganginn sem nú liggur undir Grindavík. Einnig má reikna með að nýr kvikugangur geti myndast t.d. vestur af landrisinu við Svartsengi.“

Fyrirboða um slíka atburðarás væri hægt að greina á skjálfta- og GPS-mælum.

Farið var ítarlegar yfir mögulega framvindu næstu daga og vikna í samtali við Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóra aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni, nú síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert