Héraðsdómur Reykjaness dæmdi karlmann í gær til 17 mánaða fangelsisvistar auk þess að sæta upptöku rúmlega 800 gramma af kókaíni og tæplega 500 gramma af hassi. Þá greiði hann tveimur verjendum þóknun og öðrum þeirra aksturskostnað.
Maðurinn, Zayyane Hichame, kom til landsins með flugi í lok september og hafði þá gleypt 140 pakkningar af fíkniefnum, 50 af hassi og 90 af kókaíni. Kvaðst hann við rannsókn málsins hafa talið sig hafa gleypt 140 pakkningar af hassi og ekki vitað að hann væri að flytja kókaín til landsins.
Var þeirri mótbáru hans hafnað fyrir dómi þar sem pakkningarnar hafi verið ólíkar útlits, hassið vafið í þunnan smjörpappír og ljóst límband en kókaínið í þunnt plast og svart límband. Væri því ekki unnt að fallast á að ákærða bæri vægari refsing fyrir einhvers konar staðreyndavillu né vegna þeirrar ástæðu að hann væri nýorðinn faðir í heimalandi sínu og ætti þar mjög veika móður.
Þar sem Hichame játaði brot sitt undanbragðalaust var málið þegar dómtekið eftir að sóknar- og varnaraðilar höfðu flutt mál sitt fyrir réttinum.
Segir í dóminum að ákærði hafi ekki orðið uppvís að refsiverðri háttsemi áður svo kunnugt sé auk þess sem ekki verði ráðið með vissu að hann hafi verið eigandi efnanna og njóti hann vafans þar.
Hins vegar hafi hann flutt til landsins umtalsvert magn af hassi og sterku kókaíni til söludreifingar hér á landi og væri refsing hans því hæfilega ákveðin 17 mánaða fangelsi að frádreginni gæsluvarðhaldsvist með fullri dagatölu.