Gul viðvörun tekur gildi á Suðurlandi klukkan 13 í dag vegna vestan storms.
Viðvörunin verður í gildi til klukkan 19 í kvöld. Í landshlutanum er spáð 20 til 25 metrum á sekúndu nærri ströndinni og í Vestmannaeyjum. Búast má við mjög snörpum vindhviðum staðbundið yfir 30 m/s. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.
Á landinu í dag er annars spáð vestan og suðvestan 15-23 m/s og skúrum eða éljum. Hvassast verður syðst, en bjartviðri austanlands. Hægara verður með kvöldinu, en snýst í norðan 8-15 með snjókomu norðan til. Hiti verður á bilinu 0 til 7 stig, mildast syðst.
Gengur í norðvestan 13-18 m/s með éljum norðaustanlands á morgun, en annars verða 5-13 m/s og bjartviðri. Frost verður á bilinu 0 til 6 stig, minnst úti við sjávarsíðuna.