Hægir á og líklegt að atvinnuleysi hafi náð botninum

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á fundinum í morgun.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á fundinum í morgun. mbl.is/Eyþór

Kraftur á vinnumarkaði hefur verið mikill og atvinnuleysi lítið. Enn er fjöldi fyrirtækja yfir sögulegu meðaltali sem segir að það skorti vinnuafl. Þrátt fyrir þetta er líklegt að atvinnuleysi hafi náð botninum og gæti farið að lyftast upp.

Þetta sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á fundi peningastefnunefndar bankans í kjölfar þess að ákvörðun bankans um óbreytta stýrivexti var kynnt.

„Nú erum við farin að sjá merki um að það sé að hægja aðeins á. Störf stóðu í stað milli fjórðunga, hvort sem við horfum á vinnumarkaðskönnun eða skráningargögn. Það er samt mikill vöxtur milli ára,“ sagði Þórarinn.

Atvinnuleysi er um 3% og sagði Þórarinn að þar gæti botninum hafa verið náð. „Miðað við það sem við sjáum af skráðu atvinnuleysi þá gæti það bent til að það hafi náð botni og gæti farið að lyftast upp.“

Sagði hann vinnumarkaðinn þó enn vera spenntan og fjölda fyrirtækja vinna á fullum afköstum og skorta vinnuafl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert