Margrét Birna Valdimarsdóttir, íbúi í Grindavík, segir lífið litskrúðugt og líkir óvissunni við upplifun föður í fæðingu. Hún leggur upp með að búa til rútínu fyrir börnin í rútínuleysi, þó það geti verið vandkvæðum bundið.
Margrét býr í Grindavík ásamt eiginmanni sínum, Páli Axel Vilbergssyni, börnunum þeirra fjórum og heimilishundinum Simba. Börn þeirra hjóna eru á þremur skólastigum og stunda ýmsar tómstundir. Það er því að mörgu að huga hjá fjölskyldunni sem þurfti að yfirgefa heimili sitt í Grindavík þegar bærinn var rýmdur þann 10. nóvember.
Margrét segir lífið litskrúðugt. Þessa stundina dvelur fjölskyldan til að mynda í húsnæði í Hafnarfirði. Þar fá þau að vera endurgjaldslaust fram að áramótum í boði þriggja manna sem reka kaffihúsið Pallett í bænum.
Margrét segist aldrei hafa vitað aðra eins góðmennsku. Mennirnir þrír hafi hliðrað sínum högum til að fjölskylda hennar gæti dvalið á neðri hæðinni í húsi þeirra. Fær hún að dvelja þar þangað til þeir höfðu lofað því öðrum.
Það er þó ekki það eina því Margrét segir mennina boðna og búna til þess að hjálpa þeim með hvað sem er.
„Allir þessi hlutir sem manni finnst svo eðlilegt að eiga heima hjá sér. Auka rúmföt, auka handklæði, tuskur, þeir eru búnir að bjarga okkur um allt það. Leikfangakassa fyrir þann yngsta, þetta er svo minnsta mál. Svo eru þeir alltaf að banka og spyrja hvort að okkur vanti eitthvað,“ segir Margrét.
Þegar Margrét lét í ljós við þá, hversu þakklát hún væri fyrir að þeir væru að veita fjölskyldunni þak yfir höfuðið fram yfir jól og afmæli barnanna, svaraði einn þeirra:
„Afmæli barnanna ykkar, mér finnst ótrúlega gaman að baka. Ég get alveg bakað fyrir ykkur.“
„Ég á ekki til orð yfir þessa góðmennsku, þetta eru menn sem við þekkjum ekki neitt,“ segir Margrét og lýsir fyrir blaðamanni að það hafi margir boðið fjölskyldunni húsnæði fyrir 400.000 krónur á mánuði auk hita og rafmagns, eitthvað sem þau ráði illa við.
„Á sama tíma eru mennirnir þrír ekki einungis að rétta litla puttann heldur allan faðminn,“ segir Margrét og lætur í ljós þakkæti sitt.
Þegar blaðamaður ræddi við Margréti fyrr i dag var alls óljóst um hvert fjölskyldan myndi flytjast eftir áramót.
Undir kvöld hafði maður samband við hana sem bauð fjölskyldunni húsið sitt í Keflavík til afnota eftir áramót. Skilaboðin frá manninum voru einfaldlega: „Þið verðið hér þangað til lausn finnst,“ en sjálfur ætlar hann, líkt og mennirnir í Hafnarfirði, að hliðra sínum högum svo þau hjónin geti búið börnum sínum heimili á meðan óvissuástand ríkir í Grindavík.
Þar með hefur þungu fargi verið létt af fjölskyldunni og óvissan um hvað verður eftir áramót orðin minni.
Óvissan sem Margrét hafði áður fundið hafði hún lýst fyrir blaðamanni eins og upplifun föður í fæðingu. Hún segir óvissuna þó ekki síður eiga við um framtíðina í Grindavík.
„Besta líkingin er eins og hjá föður í fæðingu. Hann stendur bara og veit ekkert hvað er að gerast. Það eru kannski sjö hjúkrunarfræðingar á staðnum, ein er á fullu á neyðarhnappinum, ein segir að þetta sé í lagi, ein er á háa c-inu rosa stressuð og faðirinn er bara: „Er allt í lagi?“, eitthvað að reyna að klappa konunni, en veit ekkert hvort að það er í lagi með barnið eða ekki. Allir binda vonir við farsælan endi og að barnið komist lifandi í heiminn.“
Í því samhengi nefnir hún: „Það eru alls konar fræðingar að segja hitt og þetta. Einhverjir eru rólegir, aðrir með rosa æsifréttamennsku og allskonar. Maður veit ekki neitt.“
Aðspurð segist hún þó fylgjast mismikið með fréttum. Aðallega geri hún það til þess að geta tekið samtalið við börnin sín, sem eru í senn bæði hrædd og spennt, eftir að hafa sjálf lesið fjölmiðlaumfjallanir.
„Bara fréttin með fyrirsögninni: „Verða engin eðlileg jól í Grindavík?“ Þá urðu þau rosalega stressuð og spurðu „verða ekki jól hjá okkur?““ segir Margrét.
Til að rugla ekki meira í rútínu barnanna og koma ákveðinni festu á líf þeirra, þar til fjölskyldan flyst í næsta húsnæði, ákváðu hjónin að hafa börnin í heimakennslu. Margrét segist ekki hafa viljað senda þau í skóla í Hafnarfirði til þess eins að þurfa að rífa þau aftur upp með rótum þegar fjölskyldan fer í annað bæjarfélag eftir áramót.
Hún segir miðjubörnin taka því ágætlega að vera í heimakennslu. Það sé þó aðeins flóknara fyrir þann yngsta, sem skilur ekkert hvers vegna hann getur ekki farið á leikskólann sinn og hitt sitt fólk.
„Hann langar að hitta sína Ágústu [leikskólakennara] og segir bara: „Ágústa sagði góða helgi, þetta er rosa langt helgarfrí,“ hann skilur ekkert í þessu langa helgarfríi,“ segir Margrét og hlær, áður en hún bætir því við að erfitt sé að bjóða börnunum upp á þessa óvissu.
Talið berst að framtíðinni og fát kemur á Margréti þegar hún er spurð hvort fjölskyldan sjái fyrir sér að snúa aftur til Grindavíkur.
„Ég elska samfélagið Grindavík, Grindavík og staðsetningu heimilisins okkar. Við vinnum bæði upp í flugstöð og ég hef oft bölvað þessari braut [Reykjanesbrautinni], að eyða öllum þessum tíma þar. En alltaf þegar ég kem heim þá líður mér rosalega vel.“
Hún segist þó verða að horfa til þess sem er best fyrir börnin og nefnir sem dæmi að sá yngsti sé skíthræddur við skjálftana. Jafnframt eigi fjölskyldan hús í Grindavík, þar sem þau hafa komið sér vel fyrir og hafa séð fyrir sér að búa áfram. Blaðamaður getur sér því til um að svarið sé eins óljóst og margt annað í lífi fjölskyldunnar um þessar mundir.
Margrét segir það hafa verið fáránlega skrítið að pakka niður fyrir sex manna fjölskyldu og hafa enga hugmynd um hvenær þau fengju að fara aftur heim.
„Þá verða dauðu hlutirnir einskis virði. Erfðagripirnir verða lítils virði þegar börnin þurfa úlpuna sína og húfuna sína.“
Hún segist hafa áttað sig enn betur á því hve lítils virði dauðu hlutirnir væru þegar fjölskylduhundurinn komst í frostlög í sumarbústað sem þau dvöldu í. Gerðist það sömu helgi og Grindavíkurbær var rýmdur.
„Þá sá maður hvers virði lífið er hjá börnunum, því þau voru skíthrædd og grétu. Þá var ekki verið að hugsa um dauðu hlutina, heldur var það hræðslan um líf hvolpsins.“
Á þeirri stundu segir hún að þau hjónin hafi áttað sig á því að þau gætu ekki farið í húsnæði þar sem hundurinn fengi ekki að fara með „Við getum ekki boðið börnunum upp á það.“
Fjölskyldan þarf þó ekki að hafa áhyggjur af aðskilnaði frá hundi sínum í bráð. Hann verður jafn velkominn og aðrir fjölskyldumeðlimir á heimilið í Keflavík eftir áramót.