Kvikan gæti leitað lengra til norðurs

Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni …
Sundhnúkur og Hagafell liggja yfir kvikuganginum, sem nær frá gígaröðinni og í suð-suðvestur undir Grindavík. Kort/mbl.is

Storknuð kvika í kvikuganginum sem liggur undir Grindavík breytir landslaginu neðanjarðar. Ef annað kvikuinnskot myndast á svæðinu er ólíklegt að það myndi hegða sér með sama hætti og síðast.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.

Gæti storknað mjög hratt

Að sögn Benedikts getur kvikan í kvikuganginum storknað mjög hratt þegar ekkert kvikuinnflæði er. Gæti ferlið tekið einungis nokkrar vikur.

„Það ferli byrjaði strax. Það er köld jarðskorpa sitthvorum megin við og hún byrjaði að kæla um leið. Þá storknar kvikan út frá jöðrunum inn í miðju,“ segir Benedikt.

„Það er að storkna kvikan þarna og þeim mun lengri tími sem líður því ólíklegra er að hún muni geta gert eitthvað meira.“

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Eyþór Árnason

Ólíklegt að það komist með sama hætti undir Grindavík

Ef svipaður atburður myndi nú fara af stað er kvikan þá sem hefur storknað þarna – er hún fyrir?

„Já, hún er fyrir. Það breytir svæðinu mjög mikið og breytir sérstaklega spennuástandinu á svæðinu. Það er að segja, að það er ekki lengur togspenna þarna. Það kvikuinnskot mun væntanlega haga sér eitthvað öðruvísi og ólíklegt að það geti komist með sama hætti undir Grindavík og jafnvel undir sjó eins og gerðist 10. nóvember. 

Það er náttúrulega erfitt að spá nákvæmlega hvernig það muni haga sér. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni. Ef það fer inn í Sundhnúkagígaröðina aftur gæti kvikan farið lengra til norðurs.

Þar fór gangurinn ekki mjög langt, ekki eins langt og til suðurs, og sömuleiðis gæti mögulega frekar verið að sú kvika nái til yfirborðs í eldgosi, og þá væntanlega í Sundhnúkagígaröðinni – á þeim slóðum sem við höfum verið að benda á að sé líklegasta gosopnunin, þarna við Hagafell.“

Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem …
Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli, þar sem gos þykir einna líklegast. mbl.is/Eggert Johannesson

Kvikan gæti leitað annað

Ekki liggur fyrir hvað er pláss fyrir mikla kviku til viðbótar á þessum slóðum áður en hún þarf að koma upp í eldgosi.

„En svo er náttúrulega líka möguleiki að hún fari hreinlega ekki aftur þangað, heldur fari til dæmis í sprungusvæði við Eldvörp eða jafnvel upp við Svartsengi. Þetta er allt dálítið opið hvað gerist næst.“

Benedikt tekur þó fram að einn möguleiki í stöðunni sé að það hægi á atburðarásinni.

„Það er ekkert sjálfgefið að það gerist eitthvað fljótlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert