Launakostnaður vegi þyngra en álagning fyrirtækja

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, kynnti Peningamál fjórða ársfjórðungs á …
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, kynnti Peningamál fjórða ársfjórðungs á fundi peningastefnunefndar bankans í Safnahúsinu í dag. mbl.is/Eyþór

Greining Seðlabankans gerir ráð fyrir því að aukin álagning fyrirtækja virðist ekki vega þungt í þróun verðbólgu undanfarinna þriggja ára. Hinn raunverulegi undirliggjandi kraftur á bak við verðbólguna sé umframeftirspurn í þjóðarbúinu og miklar kostnaðarhækkanir sem hafa komið erlendis frá.

Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands fyrir fjórða ársfjórðung þessa árs, sem komu út í dag.

Umframeftirspurn og kostnaðarhækkanir að utan

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, sagði í kynningu sinni á Peningamálum aðalatriðið vera að hlutur aukins hagnaðar almennra atvinnufyrirtækja á Íslandi vegi nokkru minna en aukin launakostnaður þeirra.

Þórarinn sagði þó hlut launakostnaðar og hagnaðar fyrirtækja hins vegar meiri en hann hefur verið að meðaltali sögulega.

„Meginkrafturinn á bak við þessa verðbólgu er, eins og við höfum alltaf sagt, þessi mikla eftirspurn sem hefur verið í þjóðarbúinu og þessar kostnaðarhækkanir sem hafa dunið yfir okkur.“

Fræðileg greining

Í Peningamálum kemur fram að vandasamt sé að greina hver ástæða verðbólgunnar undanfarið sé út frá einföldum bókhaldssamböndum þjóðhagsreikninga.

Ein leið til þess að svara því hvort verðbólgu undanfarinna ára megi rekja til aukinnar álagningar innlendra fyrirtækja sé því að styðjast við fræðilegt líkan til að greina hvaða kerfisskellir hafi verið megindrifkraftar verðbólgu undanfarinna ára.

Notast var við DSGE-líkan Seðlabankans, DYNIMO, en einn af skellum þess eru breytingar á álagningarhlutfalli fyrirtækja og með því má setja verðbólguþróun, eins og hún er mæld með vísitölu neysluverðs, í samhengi við aðrar hagstærðir og meta álagningu innlendra fyrirtækja um leið.

Greining Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir því að heilt yfir …
Greining Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir því að heilt yfir virðist aukin álagning fyrirtækja ekki vega þungt í þróun verðbólgu undanfarinna þriggja ára. Skjáskot/Peningamál Seðlabanka Íslands

Þannig er hægt að meta hve stóran hluta óvæntrar aukningar verðbólgu undanfarinna ára má skýra með breytingum á álagningu innlendra fyrirtækja.

Álagning innlendra fyrirtækja virðist hafa vegið á móti aukningu verðbólgu árið 2021 og þá mælist lítið jákvætt framlag árið 2020 og á síðasta ári.

Heilt yfir virðist aukin álagning fyrirtækja því ekki vega þungt í þróun verðbólgu undanfarinna þriggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert