Leggur til fimmföldun bankaskatts

Inga Sæland.
Inga Sæland. mbl.is/Árni Sæberg

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur breytt frumvarpi sínu um hækkun bankaskatts. Kveður frumvarpið nú á um að bankaskatturinn verði rúmlega fimmfaldaður. 

Taki frumvarpið gildi myndu tekjur ríkissjóðs aukast um rúma 30 milljarða króna á ársgrundvelli. 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér í gærkvöldi en í dag mun flokkurinn flytja frumvarpið sem um ræðir á Alþingi. 

Hækkun up í 0,838%

Frumvarpið felur í sér hækkun gjaldhlutfalls bankaskatts, sérstaks skatt á fjármálafyrirtæki, frá 0,145% upp í 0,838%. Ef lögin verða samþykkt innan þingsins munu þau taka gildi 1. janúar á næsta ári og verður gjaldhlutfallið endurskoðað þegar vextir húsnæðislána fara undir 5%. 

Í tilkynningunni kemur fram að í kjölfar breytingarinnar hafi þau Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ekki séð sér fært um að vera áfram meðflutningsmenn frumvarpsins.

Bankarnir „meira en aflögufærir“

Í tilkynningunni er gerð grein fyrir forsögu frumvarpsins sem eigi sér rætur að rekja til ársins 2020 þegar bankaskattur var lækkaður úr 0,376% í 0,145%.

„Stóru bankarnir höfðu árum saman kallað eftir lækkun bankaskattsins. Meðal annars átti það að leiða til ódýrari lána til heimila og fyrirtækja. Það er þó ljóst að lækkun bankaskattsins hefur ekki skilað sér í minni vaxtamun, og er hann svipaður nú og hann var árið 2018. Þrátt fyrir að rekstrarkostnaður bankanna hafi minnkað, arðsemi þeirra aukist og afkoman batnað. Arðsemi af undirliggjandi rekstri bankakerfisins hefur ekki verið meiri frá því bankarnir voru endurreistir 2008,“ segir í tilkynningunni. 

Þar segir jafnframt að árið 2022 hafi stóru viðskiptabankarnir þrír skilað 66,9 milljarða króna hagnaði og nemi samanlagður hagnaður þeirra það sem af er ári nú þegar 60 milljörðum. Því liggi það ljóst fyrir að bankarnir séu meira en aflögufærir til þess að taka á sig hækkun bankaskatts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert