Leita leiða til þess að auka framboð leiguhúsnæðis

Grindavíkurbær var rýmdur föstudaginn 10. nóvember.
Grindavíkurbær var rýmdur föstudaginn 10. nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil umfram eftirspurn er eftir húsnæði vegna rýmingu Grindavíkurbæjar. Leitað er nú allra leiða til þess að auka framboð leiguhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og víðar, og afbóka orlofshús svo þau standi Grindvíkingum til boða.

Mikið álag er á starfsfólki Rauða krossins og félagsþjónustu Grindavíkur sem sér um að úthluta húsnæði.

Þetta sagði Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, á upplýsingafundi vegna stöðunnar á Reykjanesskaga sem lauk fyrir skömmu.

Benti hann Grindvíkum á , sem þurfa á húsnæði að halda, að skrá sig á island.is.

Að mestu heilsárshús

„Það húsnæði sem stendur til boða í dag og næstu daga er að mestu heilsárshús í orlofsbyggðum [stéttarfélaganna]. Stéttarfélögin í landinu eru að bjóða okkur þetta til afnota án endurgjalds og þökkum við fyrir það,“ sagði Víðir á fundinum.

Að sögn Víðis er nú unnið að því að fólk sem átti bókað orlofshúsnæði gefi það eftir svo fleiri hús standi Grindvíkingum til boða. Hafa stéttarfélögin mætt miklum skilningi hjá sínu félagsfólki.

„Þetta eru lausnir til skamms tíma en á sama tíma er verið að leita allra leiða til þess að auka framboð á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og fleiri stöðum þar sem að fólk getur verið til lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert