Neikvæð umræða erlendra fjölmiðla hefur áhrif

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir skrítið ástand í bókunarhegðun á …
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir skrítið ástand í bókunarhegðun á flugferðum hingað til lands. Morgunblaðið/Eggert

Óvissa vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga hefur valdið breytingum í bókunarhegðun farþega hjá Play. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir þó ekki tímabært að meta hvaða raunverulegu áhrif staðan hefur. 

Icelandair sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem sagði að verulega hefði hægst á sölu flugferða til Íslands miðað við það sem áður var áætlað, vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. 

Neikvæður fréttaflutningur erlendis

Birgir segir ástandið skrítið, Play hafi tekið eftir breytingum í síðustu viku, eftir að myndir fóru að berast frá Grindavík í erlendum fjölmiðlum. Síðan hafi bókanir byrjað að berast aftur, í meira mæli, þegar umfjöllun í erlendum fjölmiðlum var minni. 

Hann segir Play því enn að meta stöðuna, en þó sé ljóst að ef óvissan haldi áfram í einhverjar vikur þá muni það hafa áhrif. 

„Í rauninni er óvissan verst. Eins á meðan fréttaflutningur er svona neikvæður erlendis.“

Sérstök ástæða til að hrósa yfirvöldum

Birgir segir sérstaka ástæðu til að hrósa yfirvöldum. Nefnir hann í því samhengi Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra fjölmiðla, og hennar ráðuneyti, sem hann segir standa sig gríðarlega vel í að samræma upplýsingagjöf til erlendra fjölmiðla. 

„Þetta er nokkurs konar dómsdagsfréttir sem eru að berast erlendis,“ segir hann og bætir við:

„Við vonum, í fyrsta lagi, að þetta fari allt vel. En líka að fjölmiðlaumfjöllun erlendis nái einhvers konar skynsemi.“

Mikil samstaða á flugvellinum 

Þá segir hann samstarfið í kringum flugvöllinn rosalega gott og að öll flugfélögin, auk Isavia, séu að vinna vel saman. Hann segir að búið sé að grípa til alls konar aðgerða til að tryggja að hægt verði að halda flugsamgöngum uppi, fari allt á versta veg. 

Sem dæmi er búið að koma fyrir vararafstöðvum við flugvöllinn, auk þess sem búið er að tryggja vatnsbirgðir. 

„Það er skrítið að segja það, en það er gaman að sjá samstöðuna sem verður til í svona aðstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert