„Örlög Grindavíkur koma okkur öllum við“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri .
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri . mbl.is/Eyþór

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að til viðbótar við aukin ríkisútgjöld geti jarðhræringar og mögulegt gos á Reykjanesskaga breytt væntingamyndun í landinu og þannig valdið óvissu þannig að fólk haldi að sér höndum, en slíkt myndi hafa áhrif á hagvöxt og aðrar hagtölur. Aðalhagfræðingur bankans segir að ekki hafi enn verið tekið mið af náttúruhamförunum í grunnspá bankans sem birt var í dag.

Þetta var á meðal þess sem kom fram á fundi Seðlabank­ans eft­ir ákvörðun pen­inga­stefnu­nefnd­ar um að halda stýri­vöxt­um óbreytt­um.

Ekki rétt að koma strax með greiningu

Ásgeir sagði á fundinum að þar sem ekki væri vitað neitt nánar um það hvernig atburðarrásin við Grindavík yrði eða hvenær hún myndi enda teldi Seðlabankinn ekki rétt að koma strax með greiningu á stöðunni.

Sagði hann eitt að meta aukin ríkisútgjöld, en miklu stærri hluti væri hvaða áhrif þetta gæti haft á væntingar landsmanna. Benti hann á að breytt væntingamyndun gæti haft áhrif á sparnað og neyslu landsmanna.

Allir þurfi að taka þátt í samtryggingu vegna náttúruhamfara

Ásgeir var ekki að tala í kringum hlutina þegar hann var spurður út í hvernig ætti að fjármagna kostnað við hamfarir sem þessar og sagði alla húsnæðiseigendur eiga að taka þátt í samtryggingu fyrir náttúruhamfarir.

„Ég sjálfur tel að það sé eðlilegt, eins og var gert, ef við erum að horfa á aukna hættu af náttúruhamförum, þá þurfa allir landsmenn að taka þátt í að tryggja okkur fyrir því. Ég held að það séu mjög mikilvæg skilaboð að ef við erum að horfa á aukna náttúruvá, hvort sem það er af hlýnandi loftslagi sem leiðir til þess að það séu fleiri aurskriður, eða af jarðhræringum eða álíka, að það sé samtrygging sem allir húsnæðiseigendur í landinu taki þátt í sama hvar þeir búa. Það eru mikilvæg skilaboð þá að þetta verði fjármagnað að einhverju leyti ekki með skuldasöfnun og við séum öll að taka þátt í því. Þetta er sannarlega eitthvað sem við þurfum að tryggja okkur fyrir.“

Bætti Ásgeir svo við: „Örlög Grindavíkur koma okkur öllum við.“ Benti hann á að Grindavík væri ekki langt frá Keflavíkurflugvell og með það í huga gætu ýmsar sviðsmyndir verið uppi um samdrátt ef til frekari hamfara kæmi. Hann sagði samt erfitt að meta það eða taka einn þátt út til greiningar miðað við núverandi óvissu.

Spurði Ásgeir svo Rannveigu Sigurðardóttur, aðstoðarseðlabankastjóra peningastefnu, hvort hún vildi bæta einhverju við „þessa hugvekju“ sína.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri peningastefnu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Eyþór

Jarðhræringar ekki inn í grunnspá bankans

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, staðfesti á fundinum að grunnspá bankans og sviðsmyndir sem dregnar eru upp í ritinu Peningamálum, sem kom út samhliða vaxtaákvörðun bankans í morgun, hefðu ekki tekið mið af jarðhræringunum eða jarðsiginu á Reykjanesskaga og mögulegum áhrifum af því.

Það þýðir í raun að bankinn hefur ekki tekið mið af mögulegum áhrifum af mögulegu gosi á þær tölur sem koma fram í spá bankans sem birtist í dag. Þar á meðal í spá um verðbólgu, hagvöxt o.fl.

Þórarinn sagði að bankinn fylgdist þó vel með og myndi mögulega koma með greiningu síðar, líkt og gert var nokkrum mánuðum eftir að covid 19-faraldurinn hófst.

Sagði Þórarinn að einnig þyrfti að gera greinarmun annars vegar á afleiðingum fyrir þá sem búa á svæðinu og væru hræðilegar og hins vegar á afleiðingum fyrir þjóðarbúið. Sagði hann að enn sem komið er væru áhrifin á þjóðarbúið ekki mikil.

Rýna reynslu annarra landa

Sagði hann bankann hafa rýnt í reynslu nokkurra annarra landa þegar kemur að hamförum og áhrif á hagkerfið. Nefndi hann í því samhengi nokkuð stórt dæmi frá Nýja-Sjálandi, þar sem stór jarðskjálfti lagði borgina Christchurch í rúst. Tók hann annars undir að ekki væri tímabært fyrir bankann að birta sviðsmyndir með slíkum útkomum, en að vel væri fylgst með gangi mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert