Rúmlega 50 jarðskjálftar hafa mælst við kvikuganginn frá miðnætti. Það er nokkuð minna en síðustu daga en þá hafa mælst um 1.500 til 1.800 skjálftar á sólarhring.
Enginn jarðskjálfti yfir tveimur að stærð hefur mælst það sem af er degi.
Líkt og í gær má gera ráð fyrir að hvassviðrið sem núna gengur yfir landið hafi áhrif á næmni kerfisins til að finna minnstu skjálftana. Þess vegna er erfitt að meta hvort dregið hafi úr skjálftavirkni.
Að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, er staðan almennt svipuð og síðustu daga. Enginn gosórói hefur mælst og engar nýjar fréttir eru af landrisi á svæðinu.