Segir tímabært að hefja lækkun vaxta

Vilhjálmur Birgisson, formaður ASÍ, segir tímabært að hefja lækkun vaxta.
Vilhjálmur Birgisson, formaður ASÍ, segir tímabært að hefja lækkun vaxta. Eggert Jóhannesson

Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Starfs­greina­sam­bands Íslands, segir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda vöxtum bankans óbreyttum skynsamlega, þó hann hefði einna helst vilja sjá lækkun. 

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands sendi frá sér tilkynningu í morgun um að vöxtum bankans yrði haldið óbreyttum. Meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, verða því áfram 9,25%.

Tímabært að hefja lækkun vaxta

Þrátt fyrir að Vilhjálmur telji ákvörðunina skynsamlega segist hann heldur hafa vilja sjá stýrivextina byrja að lækka, enda ástandið hjá heimilum, fyrirtækjum og öðrum orðið grafalvarlegt. 

„Það er sama hvort maður sé að horfa til bænda, heimila eða lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það eru allir að kikna undan þessu. Ákvörðunin kemur ekki á óvart, en ítreka að ég hefði vilja sjá byrjun á lækkun vaxta.“

Aðspurður segir Vilhjálmur tímabært að hefja lækkun vaxta þegar heimilin, launafólk og neytendur að berjast við að ná endum saman. Þá segir hann löngu tímabært að hætta að færa gríðarlega fjármuni yfir til fjármálakerfisins eins og nú er verið að gera. 

Ekki til að létta á spennunni á húsnæðismarkaði

„Þetta er ekki að hjálpa til við að auka hér eftirspurn eftir húsnæði, einvörðungu vegna þess að húsnæðismarkaðurinn hefur verið að dragast mikið saman vegna mikils fjármagnskostnaðar þeirra sem eru að byggja. Við munum síðan fá það beint í hausinn aftur þegar eftirspurnin [eftir húsnæði] eykst enn frekar. Þannig að það er að mörgu að hyggja.“  

Auk þess segir hann gríðarlega stóran hóp Grindvíkinga á leið inn á markaðinn, til viðbótar við þann hóp sem þegar vantar húsnæði. 

„Þannig að þetta er ekki til að létta á spennunni á húsnæðismarkaði. Þú leysir ekki þann vanda með því að vera með fjármagnskostnað í þeim hæðum að verktakar sjái sér ekki fært að halda sínum verkefnum áfram.“

Fjármagnskostnaður fyrirtækja aukist um 105 milljarða

Vilhjálmur segir liggja fyrir að einhvern vegin verði heimilin, neytendur, launafólk og fyrirtæki að standa undir þeim okurvöxtum, sem birtast í því að vaxtakjör hér á landi eru 150 til 250 prósent hærri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. 

Þá bendir hann á að þeir kjarasamningar sem gengið var frá þann 3. desember í fyrra, hafi kostað atvinnulífið 74 milljarða. Hins vegar hafi Samtök atvinnulífsins sagt að 1% hækkun vaxta kosti fyrirtæki 30 milljarða. Í því samhengi segir hann rétt að benda á að frá því í fyrra hafi vextir hækkað um 3,5%. 

„Sem þýðir á mannamáli að fjármagnskostnaður fyrirtækja hefur aukist um 105 milljarða, sem er 31 milljarði meira heldur en kostaði að ganga frá kjarasamningum,“ segir Vilhjálmur. 

Vítahringur Seðlabankans

Vilhjálmur spyr hvernig slíkt eigi að leiða til þess að fyrirtæki þurfi ekki að varpa vanda sínum út í verðlagið, með auknum kostnaði sem neytendur standa á endanum straum af. „Þetta er bara vítahringur,“ segir hann. 

„Þess vegna höfum við verið að benda á að við erum tilbúin í samtal ef allir eru tilbúnir til að róa í sömu átt. Ef að allir eru tilbúnir til þess að ganga frá langtíma samningi, þar sem aðilar myndu skuldbinda sig til að hækka ekki verðlag, gjaldskrár og annað slíkt um meira en 2,5% á ári, þá mun ekki standa á verkalýðshreyfingunni að taka þátt í slíkri vegferð,“ segir Vilhjálmur og bætir við:

„Allir um borð í bátinn og róa í sömu átt. En ekki ætlast til þess að það sé einungis launafólk um borð í þeim bát, sem þurfi að róa, á meðan hinir eru ekki tilbúnir að axla þá ábyrgð sem að þeir þurfa að axla.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert