Tilkynnt var um slagsmál á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögreglan kom á vettvang var einn slasaður en gerandinn hafði komið sér í burtu með farsíma og önnur verðmæti þess sem hann réðst á.
Önnur tilkynning barst um slagsmál. Einn slasaðist og annar var handtekinn grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangaklefa sökum ástands, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Umferðaróhapp varð í miðbæ Reykjavíkur. Bifreið var ekið á ljósastaur með þeim afleiðingum að tjón varð. Ökumaður bifreiðarinnar fór af vettvangi.
Tilkynning barst um annað umferðaróhapp í miðbænum. Engin slys urðu en ökumaður annarrar bifreiðarinnar ók í burtu af vettvangi. Lögreglan náði tali af honum stuttu seinna.