Svigrúm fyrir kviku áður en dregur til tíðinda

Framkvæmdir við varnargarða. Landrisið við Svartsengi heldur áfram.
Framkvæmdir við varnargarða. Landrisið við Svartsengi heldur áfram. mbl.is/Eyþór Árnason

Hægt hefur á hreyfingum í sigdalnum sem liggur undir Grindavík en landris við Svartsengi heldur áfram. Er hraðinn á landrisinu nú metinn tvisvar til þrisvar sinnum meiri samanborið við fyrir kvikuhlaupið 10. nóvember.

Þykir ólíklegt að það dragi til tíðinda strax þar sem kvikusyllan undir Svartsengi virðist hafa tæmst. 

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofunni.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni. mbl.is/Eyþór Árnason

Sjáum ekki minnstu skjálftana

Verulega hefur dregið úr skjálftavirkninni á Reykjanesskaga síðustu daga og hefur nú enginn skjálfti mælst yfir þremur að stærð í rúmlega tvo sólarhringa. 

„En að hluta til sjáum við ekki minnstu skjálftana út af veðrinu,“ segir Benedikt.

Hvað þýðir það að skjálftarnir séu að minnka?

„Þetta er bara áframhaldandi þróun. Við erum búin að sjá minnkandi skjálftavirkni frá því að gangurinn myndaðist, hægt og rólega. Það er í raun við því að búast að virknin minnki. Kerfið er að jafna sig. Við teljum samt enn þá líkur á að það geti komið upp kvika en eftir því sem tíminn líður fara líkurnar á eldgosi minnkandi, alla vega á kvikuganginum.“

Örlítið af láréttum hreyfingum

Að sögn Benedikts hefur hægt á hreyfingum í sigdalnum sem liggur undir Grindavík. 

„Það eru mjög litlar breytingar að sjást inni í sigdalnum frá degi til dags núna. Það er örlítið af láréttum hreyfingum en þær eru eiginlega að hverfa.“

Landrisið við Svartsengi heldur þó áfram.

„Það er tvisvar til þrisvar sinnum hraðar heldur en fyrir kvikuhlaupið. Við teljum langlíklegast að það þýði áframhaldandi kvikuinnflæði undir Svartsengi.“

Hann kveðst þó síður eiga von á því að það dragi til tíðinda í bráð.

„Það tæmdist alveg þessi sylla sem myndaðist og hefur verið að fyllast í síðan 2020, þannig það er væntanlega eitthvað svigrúm fyrir kviku að flæða þar inn áður en dregur til tíðinda.

Þó við getum kannski ekki útilokað að það gerist eitthvað innan skamms þá teljum við það frekar ólíklegt og eigum frekar von á því að það komi einhver frekari merki áður en eitthvað gerist þar – fyrst og fremst skjálftavirkni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert