Andlát: Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson yfirlæknir lést að morgni síðastliðins þriðjudags, 21. …
Jón Þorgeir Hallgrímsson yfirlæknir lést að morgni síðastliðins þriðjudags, 21. nóvember, 92 ára að aldri. Ljósmynd/Aðsend

Jón Þorgeir Hallgrímsson yfirlæknir lést að morgni síðastliðins þriðjudags, 21. nóvember, 92 ára að aldri.

Jón Þorgeir fæddist í Reykjavík 20. ágúst árið 1931. Foreldrar hans voru hjónin Margrét Ingiríður Jónsdóttir talsímavörður og Tómas Hallgrímsson Tómasson, bankaritari í Reykjavík.

Jón Þorgeir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1951 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1959. Hann fór í sérnám til Danmerkur og Svíþjóðar og varð sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp 1966.

Eftir heimkomu úr sérfræðinámi hóf hann störf á fæðingar- og kvensjúkdómadeild Landspítalans, var síðar yfirlæknir sömu deildar og sviðsstjóri kvenlækningasviðs Ríkisspítala. Þá vann hann á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands um árabil og var einn frumkvöðla í forvörnum krabbameina kvenna. Hann var lektor og síðan dósent í fæðingar- og kvensjúkdómafræðum við læknadeild Háskóla Íslands. Einnig var hann kennari við Ljósmæðraskóla Íslands.

Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa. Hann var m.a. formaður Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, sat í stjórn Félags norrænna kvensjúkdómalækna, var forseti Norrænu krabbameinssamtakanna, sat í læknaráði Landspítalans og var formaður Krabbameinsfélags Reykjavíkur og Íslands.

Jón kynntist golfíþróttinni á Svíþjóðarárunum. Hann var virkur meðlimur í Nesklúbbnum og naut sín best í hópi golfvina.

Eiginkona Jóns Þorgeirs var Steingerður Þórisdóttir, f. 1935, d. 2015. Þau eignuðust fimm börn, Ingibjörgu Þóru, Steinunni Guðnýju, Margréti Ingiríði, Þóri og Tómas.

Eftirlifandi sambýliskona Jóns Þorgeirs er Guðrún Gyða Sveinsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert