Ásdís svarar gagnrýni ASÍ

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar. Ljósmynd/Aðsend

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, segir greinilegt að ASÍ hafi ekki kynnt sér breytingar á starfsumhverfi leikskóla í Kópavogi og fleiri sveitarfélögum áður en miðstjórn sambandsins sendi frá sér ályktun um breytingarnar.

Ásdís tjáði sig um málið í færslu á Facebook þar sem hún segir ýmsar fullyrðingar ekki standast skoðun.

Sem dæmi tekur Ásdís að Í ályktun ASÍ komi fram að nýtt fyrirkomulag komi niður á láglaunafólki, innflytjendum og einstæðum foreldrum. Er þar vísað til breytinga á gjaldskrá sem felst í því að dvöl að sex klukkustundum á dag sé gjaldfrjáls en greitt sé gjald fyrir lengri vist.

Ásdís segir nýja gjaldskrá taka tillit til tekjulægstu heimilanna með tekjutengdum afsláttum. Þannig sé tryggt að tekjulág heimili fái ekki á sig gjaldskrárhækkanir eftir breytingar.

Vanfjármögnun og skammsýni

Í ályktun miðstjórnar ASÍ kom fram að undanfarna mánuði hafi borið á tillögum sem ætlað sé að leysa mannekluvanda á leikskólum og auka velferð barna með meiri samveru með foreldrum.

„Tillögurnar spretta ekki upp úr tómarúmi heldur hefur vanfjármögnun og skammsýni einkennt málaflokkinn um árabil sem bitnað hefur á kjörum og aðbúnaði starfsfólks leikskólanna. Miðstjórn ASÍ leggur áherslu á að það er á ábyrgð sveitafélaganna og stjórnvalda að tryggja fjármögnun leikskólakerfisins og viðunandi aðbúnað starfsfólks,“ segir í ályktuninni.

Ásdís bendir á að leikskólaþjónusta sé ekki lögbundin þjónusta sveitarfélaga en leikskólagjöld séu þó niðurgreidd um 90% af hálfu þeirra.

Frá því ég tók við embætti bæjarstjóra hef ég heimsótt flesta leikskóla Kópavogs til að heyra hvað þarf til að bæta starfsumhverfið. Allir voru með sömu sýn, það þyrfti að draga úr álagi og streitu með því að draga úr dvalartíma barna,“ segir í færslu Ásdísar.

Óskandi væri að miðstjórn ASÍ hefði kynnt sér áherslur og viðhorf sinna eigin félagsmanna áður en þau stigu fram,“ heldur hún áfram.

Kópavogur boðinn og búinn að ræða það

Hvað varðar fullyrðingu ASÍ um að samhliða gjaldskrárbreytingum hafi þjónusta verið skert með fjölgun skráningadaga segir Ásdís: 

Í kjarasamningum hefur verið samið um styttingu vinnuvikunnar, rúman undirbúningstíma og rúm orlofsréttindi starfsfólks. Kópavogsbær er með opna leikskóla í ólíkum hverfum bæjarins í vetrarfríi, dymbilviku og milli jóla og nýárs. Foreldrar þurfa að skrá börn sín og þjónustan er skipulögð m.t.t. skráningar. Ég viðurkenni fúslega að þetta er ekki fullkomið en nauðsynlegt til að starfsfólk geti tekið út sín uppsöfnuðu réttindi. Ekki er hægt að mæta umsömdum réttindum starfsfólks með öðrum hætti nema þjónustan sé skert allt árið um kring.

Ef ASÍ vill endurskoða slík réttindi til að koma betur til móts við barnafjölskyldur og lágmarka skráningardaga þá er Kópavogsbær boðinn og búinn að ræða það!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert