Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið og Útlendingastofnum í máli erlends manns sem var vísað úr landi. Héraðsdómur segir að ákvörðun um 14 ára endurkomubann sé ekki úr hófi, en maðurinn hlaut þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot árið 2021.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, að í kjölfar dómsins hafi Útlendingastofnun tekið ákvörðun um brottvísun mannsins í janúar 2022 og endurkomubann til landsins og var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála í mars sama ár. Dómurinn hafnaði kröfum mannsins um ógildingu þessara ákvarðana og um styttingu endurkomubanns.
Fram kemur í dómnum að maðurinn, sem er þrítugur, hafi verið með fasta búsetu hér á landi frá árinu 2016. Kveðst hann hafa haft hér atvinnu frá því að hann kom fyrst til landsins. Faðir hans hafi áður verið búsettur hér á landi í mörg ár og maðurinn kveðst árin 2014 og 2015 hafa verið hér við sumarstörf. Hann hélt því meðal annars fram að það væri ósanngjarnt að vísa honum úr landi í óvissu og vonleysi um framtíð sína, þar sem hann væri að byggja sig upp og iðraðist að auki gjörða sinna.
Tildrög málsins eru þau að maðurinn var þann 15. apríl 2021 dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfellt fíkninefnabrot. Í dómi héraðsdóms í sakamálinu kom fram að óhjákvæmilegt væri að horfa til magns og hættueiginleika þeirra efna sem um væri að ræða og að skilorðsbinding refsingar kæmi ekki til greina.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir m.a. að í ljósi alvarleika brota mannsins verði fallist á það að alvarlegar ástæður á grundvelli allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis hafi legið til þess að vísa manninum úr landi.
„Þetta framferði stefnanda telst fela í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þó að brotið sem upplýstist fjórum árum eftir komu stefnanda til landsins hefði verið fyrsta brot stefnanda verður að telja að háttsemin sé þess eðlis að bent geti til þess að stefnandi fremji refsivert brot á ný. Eru upplýsingar stefnanda við skýrslugjöf, um að hann starfi nú sem einyrki við verktöku í iðngrein sem ekkert bendir til að hann hafi fagmenntun til að stunda, síst til þess fallnar að draga úr því mati á hættu á ítrekun,“ segir í dómi héraðsdóms.
Dómurinn segir jafnframt, að ekki hafi annað verið leitt í ljós en að ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður kærunefndar útlendingamála í máli mannsins hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og að stjórnvöld hafi við þær ákvarðanir beitt þeim sjónarmiðum sem skylt sé að beita samkvæmt lögum um útlendinga og samkvæmt stjórnsýslulögum. Hinar umdeildu stjórnvaldsákvarðanir séu hvorki haldnar form- né efnisannmörkum sem leitt geti til þess að fallist verði á kröfu mannsins.
Dómurinn féllst enn fremur á, í ljósi alvarleika brotsins og takmörkuðum tengslum hans við landið, að ákvörðun um 14 ára endurkomubann væri ekki úr hófi.