Eggert Skúlason
Hin klassíska jólabók hefur ekki hækkað í tvö ár að minnsta kosti, þrátt fyrir mikla verðbólgu á sama tíma, segja útgefendur hjá Bjarti og Angústúru. Þau Pétur Már Ólafsson og María Rán Guðjónsdóttir segja veglega jólagjöf vandfundna á því verði sem jólabókin kostar.
Pétur Már segir að hefði jólabókin fylgt verðlagi þá myndi hún kosta tæpar tíu þúsund krónur en er hins vegar á tæpar átta þúsund krónur. „Svo eru alls konar tilboð í hinum ýmsu verslunum,“ bendir hann einnig á.
Þau eru sammála um að aðgerðir sem Lilja Alfreðsdóttir ráðherra kom á hafi gagnast bókaútgáfu í landinu afar vel. Bækur lúta nú svipuðu endurgreiðslukerfi og þekkt er við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi. Fjórðungur útlagðs kostnaðar forlags er endurgreiddur. Pétur Már segir kerfið einfalt og að Lilja eigi hrós skilið fyrir að koma kerfinu á.
Upphaflega stóð til að fella niður virðisaukaskatt af bókum en fjármálaráðuneytið lagðist gegn því eftir að ný ríkisstjórn leit dagsins ljós. Endurgreiðslukerfi varð því niðurstaðan.
Jólabækur eru umfjöllunarefni Dagmála Morgunblaðsins í dag og gesir eru útgefendurnir María Rán og Pétur Már. Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast þáttinn í fullri lengd.