Forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands segir að þörfinni fyrir stafvæðingu safnsins megi líkja við tifandi tímasprengju. Hún hefur ritað fjárlaganefnd Alþingis bréf til að vekja athygli á þeirri hættu sem menningararfur Íslendinga á kvikmynd stendur frammi fyrir, eins og hún orðar það, og óskar eftir fjármagni til að bregðast við. Áætlanir gera ráð fyrir 250 milljóna króna kostnaði á tíu árum ef stafvæða á allt Kvikmyndasafn Íslands.
„Filmuefni er í hættu á að skemmast, og eru sumar tegundir filma farnar að gera það, og eins er hætta á því að efnið hreinlega lokist inni í því formati sem það er á,“ segir í bréfi Þóru Ingólfsdóttur forstöðumanns.
Um 90% af efni Kvikmyndasafnsins eru enn hliðræn, það er á filmu eða spólum. Segir Þóra að það sé mun hærra hlutfall en í nágrannalöndunum og þar sé keppst við að stafvæða kvikmyndaarfinn og bjarga honum þannig frá glötun.
Klukkan tifar, að hennar sögn, því að nú eru til á safninu tæki til að færa umrætt efni yfir á stafrænt form. Verði ekki brugðist við megi búast við því að erfitt verði að sinna viðhaldi á slíkum tækjum og kostnaðarsamt sé að senda efni til útlanda til stafvæðingar, „auk þess sem það er vafasamt í meira lagi að senda menningararf þjóðar á skipi til annarra landa“, segir í bréfinu.
Kvikmyndasafn Íslands hefur margoft óskað eftir aukafjárframlögum til að hefja þessa vinnu en við litlar undirtektir, að sögn forstöðumannsins.
Fyrir tveimur árum var gerð ítarleg tíu ára áætlun um stafvæðingu sem send var til ráðuneytis menningarmála með ósk um fjármagn til að hægt væri að hefjast handa. Skemmst er frá því að segja að frá ráðuneytinu heyrðist hvorki hósti né stuna.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.