Fuglarnir snúnir aftur til Grindavíkur

Fuglar á kastalahúsinu í Grindavík í dag.
Fuglar á kastalahúsinu í Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tók eftir því að þegar skjálftarnir voru hérna um daginn þá hurfu allir fuglarnir,“ segir Haraldur Einarsson, íbúi í Grindavík, við blaðamann skömmu eftir hádegi í Grindavík í dag. 

„En núna sé ég að þeir eru byrjaðir að koma aftur,“ bætir Haraldur við sem hafði skorið í sundur nokkur epli og dreift um garð sinn.

Haraldur vitjaði heimilis síns í Grindavík í dag eins og svo margir.

Haraldur og tíkin Dimma.
Haraldur og tíkin Dimma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valda ókyrrð hjá dýrum

Fuglarnir voru þó ekki byrjaðir að kroppa í eplabitana í garði Haraldar, enda var hundurinn Dimma með í för. Víða um bæinn mátti þó greina fuglalíf, bæði við höfnina og vötnin suðvestan við bæinn. 

Vel er þekkt að jarðskjálftar valda ókyrrð hjá dýrum, en á Vísindavefnum segir að breytingar geti orðið á rafsegulsviði jarðar við jarðskjálfta. Rafsegulsviðið skynja fuglar, og reyndar hvalir og býflugur líka, með segulsteind sem er í höfði þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert