Fullir Norðmenn í ferjum eldskírnin

Gunnhildur ásamt Christopher Dønnestad kærasta sínum sem starfar hjá bílrafhlöðuframleiðandanum …
Gunnhildur ásamt Christopher Dønnestad kærasta sínum sem starfar hjá bílrafhlöðuframleiðandanum Morrow Batteries. Ljósmynd/Aðsend

„Ég bý á Tromøy sem er eyja fyrir utan Arendal, hér er mikil bátaumferð á sumrin og mjög fallegt umhverfi,“ segir Gunnhildur Eik Svavarsdóttir, netöryggissérfræðingur hjá norska fjarskiptarisanum TeleNor, uppalin hjá móður í Súðavík og föður frá Snartatungu í Bitrufirði á Ströndum. Núverandi aðsetur hennar er hins vegar í Suður-Noregi, skammt frá Suðurlandshöfuðstaðnum Kristiansand.

„Þannig að þegar ég var í skólanum á veturna sem barn var ég alltaf í Súðavík en í fríum á sumrin var ég í Snartatungu með hestunum,“ rifjar Gunnhildur upp sem enn þann dag í dag, áratugum síðar, er með þrjá hesta, einn íslenskan, á eyjunni úti fyrir suðurströnd Noregs þar sem hún nú elur manninn með norska kærastanum Christopher Dønnestad, verkferilsstjóri framleiðslu hjá bílrafhlöðuframleiðandanum Morrow Batteries, og Olav Svavar Stiansen, tíu ára gömlum syni sínum.

Ef mér datt eitthvað í hug...

„Eftir snjóflóðið í Súðavík fluttum við til Kanada þar sem mamma býr með stjúpföður mínum, sem er kanadískur, en í framhaldinu var ég líka í Danmörku þar sem pabbi var í verkfræðinámi,“ segir Gunnhildur frá en samanlagt bjó hún nokkur ár í Kanada, þó með hléum, meðal annars í Alberta, Montreal, Vancouver og víðar. „Ég vann meðal annars á skíðasvæði í Kanada, ég var þannig á þrítugsaldrinum að ef mér datt eitthvað í hug þá bara gerði ég það,“ segir Gunnhildur og hlær að minningu horfinna æskuára.

Þau Christopher halda tvo hesta, auk fleiri dýra, á eyjunni …
Þau Christopher halda tvo hesta, auk fleiri dýra, á eyjunni úti fyrir Arendal og er annar hesturinn íslenskur og Gunnhildur enn fremur félagi í hestamannafélaginu Hrana í Grimstad þar sem íslenski hesturinn situr í öndvegi. Ljósmynd/Aðsend

Alþjóðlegar tengingar netöryggisfræðingsins liggja þó enn víðar því hálfbróðir Gunnhildar átti fjölskyldu í Noregi og samhliða námi í Danmörku starfaði hún í skólafríum á ferjum Color Line, stærstu ferjuútgerðar Noregs sem heldur uppi siglingum meðal annars milli Noregs og Danmerkur.

„Það var þannig sem ég kynntist Noregi, ég átti enga fjölskyldu hérna þannig séð,“ segir Gunnhildur sem fékk að sjá skuggahliðar norskra ferjufarþega áður en þjóðin vitraðist henni að öðru leyti, en fylleríið á ferjunum milli skandinavísku landanna er annálað þar sem tollfrjálst áfengi streymir í tólf tíma siglingum og margur dáraskapurinn skreytir síður fjölmiðla.

„Ég hélt alltaf að allir í Noregi væru eins og fólkið í ferjunum, fullir og ruglaðir,“ segir Gunnhildur og hlær dátt.

Skortur á fólki með menntun í netöryggismálum

Hugur hennar stóð þó til náms í Noregi en er þar var komið sögu var Olav litli kominn í heiminn og Gunnhildur hóf nám í tölvuverkfræði við Háskólann í Agder, UiA, að loknu mæðraorlofi, valdi sér netöryggi sem sérfag og var ekkert að tvínóna við hlutina heldur lauk fjögurra ára háskólanámi á þremur árum.

Gunnhildur og Christopher ásamt Olav Svavari Stiansen, syni hennar.
Gunnhildur og Christopher ásamt Olav Svavari Stiansen, syni hennar. Ljósmynd/Aðsend

„Þá fékk ég vinnu hjá Sykehuspartner sem sér um allan hugbúnað og netöryggismál fyrir sjúkrahúsin í Noregi en núna er ég nýbúin að skipta um vinnu og komin í SOC sem kallað er hjá TeleNor, Security Operation Center, sem er í Grimstad,“ segir Gunnhildur frá en hún starfar í fyrirtækjahluta SOC og sinnir þar með netöryggismálum þeirra fyrirtækja sem eru í viðskiptum við gamla ríkissímabáknið TeleNor, áður Televerket.

„TeleNor er með mjög mikil umsvif í Agder og við sjáum um netöryggismál fyrir TeleNor sjálft en bjóðum einnig öðrum þjónustu okkar. Ef eitthvað gerist erum við að grafa í „loggum“ til að finna út hvað hafi gerst en setjum líka upp varnir sem fylgjast með því ef einhver er að reyna að brjótast inn í tölvukerfi,“ útskýrir Gunnhildur.

Aðspurð segir hún enn mikið vanta upp á að hjá norskum fyrirtækjum og stofnunum starfi fólk með menntun til að sinna netöryggismálum svo vel sé. „Við hjálpum fyrirtækjum við að koma sér af stað á þeim vettvangi og komum líka að því ef byggja þarf upp frá grunni eftir netárás.

Híbýli Gunnhildar og Christopher er bóndabær frá 1830 á Tromøy.
Híbýli Gunnhildar og Christopher er bóndabær frá 1830 á Tromøy. Ljósmynd/Aðsend

Hafa netárásir og önnur afbrot af því taginu færst í aukana undanfarið?

„Já, alveg hiklaust, og fjöldi fyritækja tapar stórfé vegna netárása. Oft smellir einhver starfsmaður á einhvern hlekk og þá eru þeir [tölvuþrjótarnir] komnir inn, þetta er oft mjög erfitt að rekja,“ segir Gunnhildur og bætir því við að einna algengust sé gagnagíslataka með svokölluðum „ransomware“-hugbúnaði en þá eru fyrirtæki krafin um fúlgur fjár fyrir að fá aðgang að gögnum sínum á nýjan leik.

Eftir meiru að slægjast á netinu

Í kjölfarið fylgi upplýsingasöfnun, einfaldlega njósnir, þar sem erlend ríki sækist eftir upplýsingum frá norskum fyrirtækjum, í raun iðnaðarnjósnir í nýjum og breyttum heimi. „Upplýsingarnar sem sóst er eftir eru langoftast varðar eldvegg [e. firewall] og þú þarft alveg að vita hvað þú ert að gera til að brjótast þar inn,“ segir Gunnhildur.

Ferfættu fararskjótarnir narta í heyið í makindum og láta fátt …
Ferfættu fararskjótarnir narta í heyið í makindum og láta fátt raska ró sinni. Ljósmynd/Aðsend

Hún þykist þess fullviss að netárásir og -innbrot eigi eftir að verða mun stærra vandamál er fram líða stundir, „núna er allt stafrænt og eftir mun meiru að slægjast á netinu“, segir hún.

Mál komi upp á hverjum degi og fjöldi aðvörunarljósa kvikni. „Sumt af því er bara það sem kallað er „false positive“, þá lítur bara út fyrir að verið sé að gera netárás. Til dæmis ef einhver sem er að vinna á Morgunblaðinu og hefur aðgang að mörgu er að gera eitthvað sem er ekki alveg hluti af hans dags daglega verkahring. Þá gæti borist aðvörun um það,“ útskýrir sérfræðingurinn.

Vakna í kjölfar raunverulegrar ógnar

Aðspurð segir Gunnhildur annað útilokað en að fyrirtæki muni í framtíðinni ráða til sín æ hæfara fólk til að verjast netárásum, í húfi séu gríðarlegir fjármunir og tjónið umtalsvert sem óprúttnir en hæfir netárásarmenn geti valdið.

Fáir búa mjög lengi í Noregi án þess að stíga …
Fáir búa mjög lengi í Noregi án þess að stíga fæti á skíði þótt sá sem hér skrifar sé raunar undantekning þar í frá. Ljósmynd/Aðsend

Norsk fyrirtæki segir Gunnhildur nú verða æ meðvitaðri og þau sæki í þjónustu verndara lýðnetsins. „Margir þurfa þó að brenna sig fyrst,“ segir hún kankvís og á þar við að sumir vakni ekki fyrr en raunveruleg ógn hefur knúið dyra. „Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast í þessu, engir tveir dagar eru eins.“

Nóg rætt um atvinnumál og netógnir að sinni. Gunnhildur og Christopher keyptu gamlan bóndabæ á Tromøy, byggðan árið 1830 og una þar hag sínum í blómguðu dalanna skauti. „Ég er með tvo hesta sem ég leigi út, annan íslenskan, og svo einn bara fyrir mig, hænur og kött, segir Gunnhildur sem fer töluvert í hestaferðir til Íslands auk þess að heimsækja foreldrana til Danmerkur og Kanada.

Hestamannafélagið Hrani í Grimstad

Foreldrarnir umræddu eru þau Margrét Guðrún Elíasdóttir, hjúkrunarfræðingur í Kanada, og Svavar Sigurkarlsson, verkfræðingur í Danmörku.

Vert er að geta þess að Gunnhildur er félagi í hestmannafélaginu Hrana í Grimstad sem snýst eingöngu um íslenska hesta þótt félagsmenn séu flestir Norðmenn. „Þeir eru mjög hrifnir af íslenska hestinum, hér er verið að keppa auk þess að halda alls konar námskeið þar sem kenndar eru gangtegundir íslenska hestsins,“ segir Gunnhildur af Hrana.

Útreiðartúr í norskri náttúru ætti að freista flestra áhugamanna um …
Útreiðartúr í norskri náttúru ætti að freista flestra áhugamanna um hesta og í hestamannafélaginu Hrana í Grimstad er sérstakt áhugafólk um íslenska hestinn og þar haldin námskeið í gangtegundum hans. Ljósmynd/Aðsend

Undir lok spjalls kveðst Gunnhildur vel geta hugsað sér að búa áfram í Noregi. „Ég heimsæki Ísland oft og fæ oft heimþrá en ég sé fram á að vera áfram hér, þetta er svo stutt að fara á milli. Norðmenn eru mjög hlýir og gott fólk, maður finnur kannski mest fyrir því hvað þeir eru skipulagðir og þurfa að hafa hlutina í föstum skorðum, ef maður ætlar í heimsókn til einhvers segir maður ekki bara „heyrðu, ég kíki á þig“, það þarf að ákveða upp á hár hvaða dag og klukkan hvað,“ segir netöryggissérfræðingurinn í Arendal að lokum og hlær við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert