Fyrsti dagurinn í nýju leikskipulagi

Otti Rafn Sigmarsson og Bogi Adolfsson úr björgunarsveitinni Þorbirni í …
Otti Rafn Sigmarsson og Bogi Adolfsson úr björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík ræddu við mbl.is í Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Johannesson

Þeir Otti Rafn Sigmarsson og Bogi Adolfsson, úr björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, hafa staðið vaktina í Grindavík nánast dag og nótt frá því jarðhræringarnar hófust í og við Grindavík í lok október.

Þeir félagar ræddu við mbl.is í Grindavík í dag en klukkan 11 í morgun var almannavarnarstig lækkað úr neyðarstigi niður á hættustig.

Hvernig er tilfinningin að koma til Grindavíkur í dag nú þegar neyðarstig er komið niður á hættustig?

„Erum við ekki bara jákvæð og bjartsýn? Fólk er að koma að sækja kannski sínar síðustu eigur. En núna þegar við stöndum hérna úti í í björtu og fallegu veðri þá finnum við auðvitað fyrir því að þetta er erfitt þegar fólk veit ekki hvenær það fær að snúa til baka. En þetta er skref áfram,“ segir Otti. 

„Þó að það sé hleypt inn í bæinn í dag þá er takmark á bílastærð. Það kemur kannski að því seinna meir að fólk fær að ná í stærri hluti. Ef við þurfum að rýma bæinn þá getum við ekki haft marga stóra bíla í einu. Það yrði þá framkvæmt öðruvísi ef út í það færi,“ segir Bogi.

Búist þið við því að fólk vilji koma og ná í stærri hluti?

„Já sérstaklega ef fólk er farið að leigja hús og er ekki með neitt inni í húsunum. Fólk þarf að sýna okkur þolinmæði. Þetta er leikmynd sem hefur ekki verið spiluð áður og það tekur tíma að ná utan um þetta,“ segir Bogi og Otti bætir við: „Þetta er svona fyrsti dagurinn í nýju leikskipulagi og við erum svona ennþá að átta okkur á þessu en það mun koma þörf á þessu.“

Ekkert gaman að rúnta um draugabæ

Eru þið búnir að hitta einhverja sem eru að koma í fyrsta sinn?

„Nei en við erum lítið á ferðinni. Dagurinn er fyrir fólkið og við viljum ekkert vera að flækjast fyrir. Það er ekkert eftirlit en við fylgjumst samt með og erum með gott viðbragð lögreglu, sjúkrabíla, slökkviliðs, björgunarsveitamanna og aðgerðastjórnendur niðri í húsi. Þetta er ekki búið og tekur sinn tíma,“ segir Bogi. 

Venst þetta einhvern tímann. Eru ykkur búið að líða þannig síðustu tvær vikur að það sé einhver venjulegur dagur?

„Við björgunarsveitafólkinu hefur liðið eins og Palli var einn í heiminum þegar við erum hérna en annars er ekkert gaman að rúnta um draugabæ. Þegar maður sér smá umferð núna þá er maður jákvæðari sjálfur og veðrið hjálpar til. Það er alltaf logn í Grindavík nema suma daga,“ segir Bogi og hlær.

Otti og Bogi við sjoppuna í Grindavík. Góssið fór beint …
Otti og Bogi við sjoppuna í Grindavík. Góssið fór beint niður í björgunarsveitarhús þar sem viðbragðsaðilar hvíla sig á milli vakta og þar sem aðgerðastjórn er. mbl.is/Eggert Johannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert