Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem lögreglustjóranum í umdæminu var heimilað að taka strokusýni úr munni manns til að afla rannsóknargagna.
Fram kemur í úrskurði héraðadóms, sem féll 13. nóvember, að maðurinn, sem hefur stöðu sakbornings í málinu, sé grunaður um nauðgun.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að brotaþoli í málinu sé andlega fötluð kona sem glími við áfengisvanda.
Að hennar sögn hefur maðurinn nokkrum sinnum farið í Vínbúðina fyrir hana og keypt áfengi og hefur maðurinn viðurkennt slíkt athæfi.
„Samkvæmt frásögn brotaþola mun hann í vor eða sumar hafa farið í Vínbúðina fyrir hana og keypt rauðvínskassa og viljað fá borgað með kynlífi og hún hafi látið það eftir honum. Það er ekki alveg ljóst á rannsóknargögnum málsins hvenær meint brot á að hafa átt sér stað ef það hefur á annað borð gerst. Sakborningur neitar sök og segist aldrei hafa stundað kynlíf með brotaþola,“ segir í greinargerð lögreglu.
Þá kemur fram, að við rannsókn málsins hafi verið lagt hald á muni í svefnherbergi konunnar sem hafi verið sendir í rannsókn. Maðurinn segist aldrei hafa komið í svefnherbergi hennar.
„Ef þar finnast nothæf lífssýni er nauðsynlegt að mati lögreglu og ákæruvalds að geta borið þau sýni saman við Dna sýni úr sakborningi. Sakborningur neitar algjörlega að heimila lögreglu að taka svona sýni,“ segir í greinargerð lögreglu.
Landsréttur staðfesti svo úrskurð héraðsdóms 14. nóvember.