Líf og fjör var í fimleikahúsi Fylkis í hádeginu þegar Betri borgarar í Árbæ tóku á móti Guðna Th. Jóhannessyni forseta og Elízu Reid forsetafrú, sem verja deginum í opinberri heimsókn í Reykjavík, í fylgd Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Örnu Daggar Einarsdóttur, eiginkonu hans.
Betri borgarar í Árbæ er íþróttahópur eldri borgara í Árbæ sem koma saman tvisvar í viku, hreyfa sig og hafa gaman. Í hópnum eru um 130 manns sem margir hafa verið hluti af hópnum frá því að hann var stofnaður fyrir um þremur árum.
Gestirnir tóku þátt létta æfingu með Betri borgurunum í Árbæ og áttu með þeim góða stund.
Blaðamaður ræddi við nokkra eldri borgara sem allir voru sammála um mikilvægi þess að hreyfa sig, en ekki síst að hafa gaman og hitta fólk.
Svo mikilvægt að ein þeirra kvaðst koma alla leið frá Árborg til að hitta félaga sína, en hún byrjaði að æfa með hópnum fyrir um þremur árum þegar hún bjó í Árbæ, en gat ekki hugsað sér að segja skilið við hópinn.
Um er að ræða stöðvaæfingar sem blaðamanni var sagt að tækju stöðugum breytingum og því er ekki gengið að því vísu hverju sinni, hvaða æfingar verða gerða þann daginn. Meðal stöðva í dag voru lyftingaæfingar, badminton, jafnvægisæfingar og heilaæfingar, sem blaðamanni var gert grein fyrir að væru ekki síður mikilvægar.