Búið er að hanna leiði- og varnargarða fyrir norðan Grindavíkurbæ sem eiga að beina hraunflæði austur fyrir byggðina ef til eldgoss kemur í Sundhnúkagígum.
Einnig er búið að hanna varnargarða fyrir vestan bæinn til að verja byggðina ef kvika kemur upp, t.d. fyrir vestan Svartsengi eða í Eldvörpum. Þá ætti að vera hægt með tiltölulega hröðum hætti að setja upp leiði- og varnargarða til að verja byggðina þeim megin.
Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á Alþingi í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Miðflokksins.
„Stærsta áhyggjuefnið okkar hefur verið orkuverið og við höfum verið að gera af okkar veikasta mætti allt sem hægt er til þess að sjá við móður jörð til þess að verja orkuverið í Svartsengi,” sagði hún.
Einnig sagði hún í svari sínu að ef eldgos kæmi upp í sjó myndu flugsamgöngur truflast verulega á Keflavíkurflugvelli. Flugmálayfirvöld hefðu rýnt það mál vel og gert ráðstafanir þess efnis að flugumferð yrði beint á Egilsstaði og Akureyri. Sú vinna stæði yfir.