Isavia fylgist skiljanlega vel með jarðhræringunum á Reykjanesskaganum og gerðar hafa verið áætlanir fyrir alþjóðaflugvöllinn í Keflavík ef eldgos skyldi hefjast.
„Neyðarstjórn Isavia fylgist vel með þróun mála vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga og er hugur okkar hjá Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum,“ segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia.
„Við erum sem fyrr í nánu sambandi við Veðurstofu Íslands og almannavarnir vegna þessa. Ef til eldgoss kemur fela áætlanir okkar í sér að tryggja öryggi og áframhaldandi rekstur Keflavíkurflugvallar.“
Ekki eru það einungis Íslendingar sem kortleggja stöðuna og til að mynda vinnur eldgosamiðstöð Alþjóðaflugmálastofnunarinnar að spám.
„Við upphaf eldgoss er afmarkaður 120 sjómílna, 220 km, hringur utan um eldstöðina sem er lokaður fyrir allri flugumferð. Á sama tíma eru Veðurstofan og samstarfsaðilar eins og London VAAC [ein af eldgosamiðstöðvum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar] að gera spá um öskusvæði, um leið og sú spá er útgefin, sem tekur yfirleitt innan við klukkustund, er lokunarhringurinn tekinn af og flugrekendur ákveða sjálfir með framhaldið á grundvelli öskuspár.“
Ef allt færi á versta veg og náttúruhamfarir myndu hafa áhrif á afhendingu á rafmagni eða vatni er flugvöllurinn með aðgang að varaaflsstöðvum.
„Hafi eldgos áhrif á afhendingu rafmagns eða vatns á Reykjanesi er Keflavíkurflugvöllur með aðgang að þremur varaaflsstöðvum ef til þess kæmi að rafmagn færi af vegna mögulegs eldgoss. Þær eru allar þrjár á flugvellinum og hafa varaaflsstöðvar áður verið notuð í rafmagnsleysi á vellinum. Allar eru þær dísilknúnar. Ef vatn myndi ekki berast með einhverjum hætti vegna eldsumbrota þá eru leiðir til að bregðast við því og er unnið að útfærslu þess samkvæmt áætlunum.“