Á fundum umhverfis- og skipulagsráðs og borgarráðs Reykjavíkur nýlega var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Heilsuverndarreits vegna lóðarinnar númer 5 við Egilsgötu.
Í breytingunni felst að heimilt verði að reisa þriggja til fimm hæða hús á horni Snorrabrautar og Egilsgötu, með verslunar-/þjónustuhúsnæði á götuhæð næst Snorrabraut og allt að 48 íbúðum á efri hæðum. Aðgengi að dvalarsvæði verður frá Egilsgötu og heimild er fyrir þaksvölum og bílakjallara.
Á lóðinni er nú sjálfsafgreiðslustöð Olís með fjórum eldsneytisdælum, reist 1998. Yfir þeim er 140 fermetra skyggni. Þessi mannvirki sem og tankar verða fjarlægð. Klasi ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi en Tendra arkitektúr hannaði tillögurnar.
Reykjavíkurborg hefur sett sér markmið um fækkun eldsneytisstöðva og fellur lóðin Egilsgata 5 undir það markmið. Næsta hús fyrir ofan er Domus Medica. Á næstu lóð fyrir norðan, Snorrabraut 62, er risið nýtt fjölbýlishús með 35 íbúðum. Þær íbúðir voru nýlega auglýstar til sölu í Morgunblaðinu.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.