Isavia þarf ekki að greiða milljarð í bætur

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Isavia af kröfum Hópbíla ehf. og Airport Direct ehf.

Málið er sprottið af rekstararleyfissamningi sem Hópbílar ehf. gerðu árið 2018 við Isavia um svokölluð nærstæði fyrir hópbifreiðar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og miðasöluaðstöðu innan flugstöðvabyggingarinnar. Samningurinn var gerður í samræmi við niðurstöðu útboðs sem Isavia efndi til með aðstoð Ríkiskaupa.

Málið var höfðað í mars árið 2021. Airport Direct ehf. krafðist þess að Isavia greiddi þeim tæpan milljarð króna í bætur. Hópbílar ehf. kröfðust þess m.a. að umræddum rekstarleyfissamningi yrði breytt þannig að veltugjald lækkaði úr 33,33% í 16,66% vegna verðlags á fjarstæðum. Einnig var þess krafist að Isavia greiddi Hópbílum ehf. tæpar 170 milljónir króna í bætur.

Rútur Hópbíla.
Rútur Hópbíla. mbl.is/Sigurður Bogi

Í útboðinu sem Isavia efndi til var boðinn út aðgangur að stæðum fyrir hópferðabifreiðar við flugstöðvarbygginguna og aðstaða til miðasölu innanhúss. Samningur þess efnis átti að gilda í fimm ár með möguleika á framlengingum um eitt ár í senn í tvígang til viðbótar. Akstur samkvæmt samningi átti að hefjast 1. mars 2018. Bjóða átti þóknun sem væri hlutfall af tekjum vegna ferða frá Keflavíkurflugvelli, með tiltekinni lágmarksþóknun auk aðstöðugjalds og gjalds fyrir bílastæði.

Þrjú tilboð bárust

Tilkynnt var í júlí árið 2017 um að Hópbílar ehf. hefðu orðið hlutskarpastir ásamt Hópbifreiðum Kynnisferða ehf.. Lagt hafði verið upp með af hálfu Isavia að samið yrði við tvo aðila á grundvelli útboðsins. Þrjú tilboð bárust í útboðinu. Tilboð Hópbifreiða Kynnisferða ehf. var hagstæðast en það fól meðal annars í sér að greitt yrði veltugjald sem næmi 41,2% af farmiðaverði til Isavia.

Tilboð Hópbíla ehf. fól í sér 33,3% veltugjald og Allrahanda GL ehf. bauð 26,5% veltugjald. Síðasttalda fyrirtækið laut þar með í lægra haldi í útboðinu.

Því var strax lýst yfir af hálfu Allrahanda GL ehf. að félagið myndi halda áfram áætlunarakstri frá flugstöðinni og nýta til þess svokölluð fjarstæði við flugstöðina í þeim tilgangi, sem það gerði. Það félag hafði ásamt Hópbifreiðum Kynnisferða ehf. fram að útboðinu annast akstur með flugfarþega frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar allt frá árinu 2011.

Kjarni ágreiningsins

Í dómnum kemur fram að kjarni ágreinings aðilanna hafi snúist um möguleika annarra en þeirra sem urðu hlutskarpastir í útboðinu til að halda uppi áætlunarferðum frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá svonefndum fjarstæðum og þá hver gjaldtaka af notkun þeirra stæða ætti að vera. Deilan í þessu máli snerist um hvort tilhögunin um gjaldtöku á fjarstæðum sem var í gildi hefði áhrif á rekstarleyfissamninginn um nýtingu á nærstæðum og þá hvaða áhrif.

Eins og áður segir var Isavia sýknað af öllum kröfum stefnenda og var þeim gert að greiða Isavia sameiginlega fjórar milljónir króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert