Íslendingar í Dyflinni: Bensínsprengjur og brunnir bílar

Hafþór Ægir Þórsson segist taka vel eftir óeirðunum sem eiga sér stað í Dyflinni. Hann og vinafólk hans hafi orðið vör við að minnsta kosti þrjá sprengjuhvelli sem glumdu um miðbæinn.

Hann tók upp myndskeið sem sýnir vel ástandið þar í borg. 

Í kvöld braust út alda ofbeldis og óeirða í Dyflinni, í kjölfar þess að ráðist var á fimm manns með hnífi, þar af þrjú ung börn, fyrir utan grunnskóla í dag. Hópur mótmælenda hefur safnast saman á svæðinu. Ráðist hefur verið á lögreglumenn og kveikt í bílum. 

Hafþór segir sig og samferðafólk sitt vera stödd á hóteli nálægt grunnskólanum þar sem stunguárásin átti sér stað fyrr í dag. Þau eru þar tíu saman.

Sprengingar og þyrlur

Um klukkan hálf átta voru Íslendingarnir að rölta heim á hótel þegar þau heyrðu sprengingu og sáu þyrlur á sveimi. „Þetta er bara eins og maður sér í bíómyndum,“ segir Hafþór. Þau hafi stuttu síðar heyrt aðra sprengingu.

Þegar þau komu að ánni í miðbæ Dyflinnar tók Hafþór myndskeiðið sem fylgir fréttinni. Á því má sjá að minnsta kosti tvo eldsvoða.

„Það virðist hafa soðið upp úr hjá einhverjum öfgahópum. Sem gengu um miðbæinn núna í kvöld og voru að henda bensínsprengjum inn í bæði lögreglubíla og strætóa. Mér skilst að það liggi nokkrir bílar í valnum, brunnir,“ segir Hafþór.

Kveikt hefur verið í bílum og strætisvögnum í borginni.
Kveikt hefur verið í bílum og strætisvögnum í borginni. AFP

„Menn eru ekki bara að berja á potta og pönnur“

Hafþór segir sig og samferðafólk sitt hafa komið við í matvörubúð á leið heim frá því að borða kvöldmat.

„Henni var lokað á meðan við vorum inni. Þau gerðu það út af þessu ástandi.“ Eins hafi verslunum í kring verið lokað. „Þetta er frekar spennuþrungið andrúmsloft. Maður þekkir þetta ekki,“ segir Hafþór.

Hafþór segir þau hafa verið nokkuð hrædd. „Manni varð ekki alveg sama. Þegar mótmæli brjótast út í Evrópu – menn eru ekki bara að berja á potta og pönnur.“

Hann segir Íra skelkaða. Innfæddir hafi varað þau við að halda lengra í átt að miðbænum þar sem hótel þeirra er staðsett. Verslunareigendur hafi verið i óða önn að loka búðum sínum allt í kring. „Fólki var ekki sama, alls ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert