Kostnaður við varnargarðana sem reisa á til að vernda innviði í Svartsengi vegna hugsanlegra eldsumbrota gæti numið 3,8 milljörðum króna.
Eins og greint var frá fyrr í mánuðinum var ákvörðun tekin um að reisa varnargarð við Svartsengi til að verja bæði Bláa lónið og virkjun HS Orku, svokallaður Svartsengis-Bláalónsgarður.
Framkvæmdir við garðinn eru hafnar en hann á að verða tæplega 4 km á lengd og um 6-8m að hæð. Kostnaður við garðinn var metinn á 2,5 til 3 milljarða króna en gera má ráð fyrir 20% óvissu í kostnaðarmati.
Í minnisblaði ríkislögreglustjóra til dómsmálaráðuneytisins, dagsett 14. nóvember, segir að sú leið sem áður hafi verið skoðuð hafi ekki tekið mið af breyttri atburðarás.
Þar sem mögulegt er að eldgos komi upp við Sundhnúk var ákveðið að reisa annan varnargarð milli Sýlingarfells og Þorbjarnar, Svartsengisgarð austari. Er áætlaður kostnaður vegna framkvæmda við þann garð metinn á 0,5- 0,8 milljarða króna. Gera má ráð fyrir 20% óvissu í kostnaðarmati.
„[Svartsengisgarður austari] var ekki í fyrstu áætlunum, því ekki var talið að ógn væri frá Sundhnúkum. Miðað við stöðuna í dag er þörf á að reisa þann garð út frá mögulegu hraunrennsli frá Sundhnjúkum. Hann er um tæplega 1,5km á lengd, yrði að jafnaði um 6m hár og kostnaður áætlaður 0,5- 0,8 MMKR,“ segir í minnisblaðinu.