Birna Sverrisdóttir hafði í nógu að snúast við að reyna að koma bifreið barnabarnsins af hættusvæðinu í Grindavík þegar blaðamaður og ljósmyndari mbl.is heimsóttu bæinn í dag. Hún var koma heim í annað sinn frá því bærinn var rýmdur föstudagskvöldið 10. nóvember. Hún stefnir á að snúa aftur til Grindavíkur þegar hættan er liðin hjá.
Birna segir frá því að þau hafi fengið leyfi til að nota bílakerru til að sækja bíllinn, sem er í óökuhæfu ástandi, en leyfið hafi síðan verið afturkallað. Hún kveðst ekki vita af hverju.
„Það hefur bara verið afturkallað í morgun því við vorum búin að fá skriflegt leyfi að koma með kerru og ná í bílinn.“ Fjölskyldan varð því að beita öðrum aðferðum til að koma bifreiðinni af hættusvæðinu.
Sem fyrr segir þá var þetta í annað sinn sem Birna kemur heim eftir að bærinn var rýmdur.
„Ég var búin að koma í einhverjar þrjár mínútur um daginn. Það er náttúrulega agalegt þegar maður kemur að maður getur ekki hugsað,“ segir Birna í samtali við mbl.is. Það sé erfitt á svona skömmum tíma að átta sig á því hvað maður eigi að sækja úr húsinu.
„Það var því voðalega gott að fara inn núna og hafa þarna einhverjar mínútur; en ég snerist samt bara í hringi,“ bætir hún við hlæjandi. Hún hafi þó tekið ósköp lítið; það vantaði helst skó. Hún kveðst þó hafa haft vit á því í upphafi að taka með sér hlýjan og góðan fatnað.
Tíminn hafi annars farið mikið í biðraðir til að reyna komast heim í örfáar mínútur. Hún tekur fram að það sé afar sérstakt að koma í bæinn núna. „Þetta er bara eins og að keyra inn í eyðibæ, það er bara svoleiðis.“
Spurð út í líðanina eftir að viðbúnaður almannavarna var færður af neyðarstigi niður á hættustig segir Birna: „Ég veit ekkert hvernig mér líður. Þetta er bara svo absúrd að koma. Allt er svo absúrd. Æ hvað á maður að segja?“
Hvað varðar ástand hússins, þá segir Birna að það sé í lagi. „Það var ekkert verra en þegar ég fór. Það var búið að detta það mikið niður og ég var ekkert að fara taka til.“
Birna segir aðspurð að hún sé komin með húsnæði til að dvelja í. „Við erum heppin. Við komumst inn í húsnæði á Stokkseyri hjá æðislegri konu sem leyfði okkur að fara í húsin.“ Aðspurð segir hún að ekki sé þörf á að flytja mikið af húsgögnum eða öðrum munum á nýja dvalarstaðinn.
„Við erum að koma heim,“ segir Birna kokhraust um viðhorf Grindvíkinga gagnvart heimabænum. Fólk vilji snúa aftur til síns heima.