Nemendum er mætt og veittur stuðningur

Foreldrar og kennarar úr Grindavík tóku stöðuna í Laugalækjarskóla í …
Foreldrar og kennarar úr Grindavík tóku stöðuna í Laugalækjarskóla í gær en kennsla hefst þar í dagþ mbl.is/Árni Sæberg

Nærri helmingur þeirra 555 nemenda sem skráðir eru í Grunnskóla Grindavíkur er kominn til náms að nýju í þeim fjórum starfsstöðvum sem skólinn hefur nú í Reykjavík. „Eftir umrót að undanförnu er mikilvægt að mæta nemendum á þeirra eigin forsendum og veita þeim stuðninginn sem þarf. Þegar komið er fram í næstu viku verður vonandi hægt að snúa sér að bókunum og því námsefni sem fyrir liggur,“ segir Eysteinn Kristinsson skólastjóri í samtali við Morgunblaðið.

Reykjavíkurborg hefur verið bakland Grindavíkur nú þegar bregðast þarf við neyðarástandi í bænum. Í skólastarfi þykir mikilvægt að nemendur og árgangar haldi hópinn. Samkvæmt því hefur bekkjum verið ráðstafað í hús þau sem borgin býður. 1.-2. bekkur er í Hvassaleitisskóla og 3.-4. bekkur í Víkingsheimilinu í Safamýri. Þar hafði sitt að segja að á þessum stöðum eru góð úti- og leiksvæði eins og er mikilvægt þegar yngstu börnin eiga í hlut. Ármúli 30 er nú skólastaður nemenda í 5.-8. bekk og 9.-10. bekkur mætir í Laugalækjarskóla. Síðastnefndi staðurinn er unglingaskóli og því þótti henta vel að nemendur úr elstu bekkjum Grindavíkur færu þangað.

Eysteinn Kristinsson tók stöðuna á nemendum í gær.
Eysteinn Kristinsson tók stöðuna á nemendum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Nú á síðustu dögum höfum við fengið upplýsingar víða af landinu um hvar nemendur okkar eru staddir. Margir eru í Reykjanesbæ, stór hópur er á Selfossi og einnig eru margir með fjölskyldum sínum í sumarhúsum á Suðurlandi. Einnig höfum við heyrt af nemendum frá okkur sem eru í Vestmannaeyjum, á Höfn, Vopnafirði og vestur á fjörðum. Þetta er allt landið,“ tiltekur Eysteinn. Hann segir jafnframt til greina koma að bjóða nemendum, sem nú eru á Suðurnesjum eða fyrir austan fjall, skólakstur til og frá Reykavík svo skólasystkini geti áfram haldið hópinn.

Starfsmenn við Grunnskóla Grindavíkur eru um 100. Sumir af þeim eru nú mættir á vaktina með sínum nemendum í skólunum í Reykjavík. Aðrir eru þessa dagana lengra frá og komast því ekki til vinnu. Öllu þessu segir Eysteinn reynt að mæta á forsendum fólksins sem nú sé í fordæmalausri stöðu.

Skólaskylda gildir ekki nú

Á vef Grindavíkurbæjar segir að mæting barna úr skóla þaðan úr bæ sé valkvæð. Skylda gildi ekki nú. Foreldrar eru þó hvattir til þess að ræða við börn sín um hugmyndir þeirra um skólagöngu næstu vikurnar. Börnum stendur einnig til boða að fara í hverfisskóla næst núverandi heimili. Þá skuli foreldrar hafa samband beint við stjórnendur viððkomandi skóla.

Einnig er frá því greint að til standi að opna leikskóla þar sem börn verði með kennurum sem þau þekkja og jafnvel foreldrum í byrjun til að auka öryggi þeirra. Vænta megi frekari upplýsinga um leikskólastarf á næstu dögum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert