„Kærunefndin var sammála Útlendingastofnun og þá fórum við í að fá svona heimsóknarleyfi fyrir hann,“ segir Eyrún Guðmundsdóttir grunnskólakennari í samtali við mbl.is en eins og áður hefur verið fjallað um hér hefur eiginmanni hennar, Revazi Shaverdashvili, ítrekað verið synjað um landvistarleyfi á Íslandi.
Hann er frá Georgíu og staddur þar núna en þau Eyrún eiga von á dóttur á Þorláksmessu og kveðst Eyrún eiga erfitt með að hugsa sér að faðirinn verði ekki viðstaddur þegar dóttir þeirra kemur í heiminn.
Var Revazi síðast synjað um landvistarleyfi í apríl og kærðu þau úrskurðinn en niðurstaðan varð sú sem Eyrún nefnir hér í upphafi viðtals og lá fyrir í haust. „Hann var ólöglega hér í byrjun og því telur Útlendingastofnun að við höfum bara gift okkur til að hann fengi dvalarleyfi og þeir eru harðir á því, neita í raun að hlusta á nokkuð annað,“ segir Eyrún.
Þeim tókst að fá heimsóknarleyfi með gildistíma frá 1. nóvember til 1. febrúar en þegar ferðalag Revazi var nýhafið var hann stöðvaður í millilendingu þar sem hann er í endurkomubanni á Schengen-svæðinu. „Þá má hann ekki millilenda í Schengen-ríki, Noregur gaf það út núna í febrúar en hann hefur ekki verið þar síðan 2009 svo við vitum ekki alveg af hverju þeir eru að setja hann í þetta núna,“ heldur Eyrún áfram sem hefur leitað skýringa hjá norskum yfirvöldum.
„Þegar ég tala við Noreg benda þeir á Ísland og Ísland bendir á Noreg svo ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja til að fá upplýsingar um þetta og það er rosalega erfitt,“ segir hún.
Eyrún á að eiga eftir fjórar vikur sem fyrr segir. „Nær hann að koma eða nær hann ekki að koma? Ég get náttúrulega ekki flogið út núna svo ég er bara að fara yfir um af að hugsa um þetta. Auðvitað reynir maður eitthvað en rekur sig alls staðar á að ekkert sé hægt að gera, maður snýst bara í hringi,“ segir kennarinn.
Staðan er sú að Revazi gæti komið til Íslands og nýtt sér heimsóknarleyfið ef hann þyrfti hvergi að millilenda í Schengen-ríki á leiðinni. „Maður er búinn að skoða Tyrkland og Serbíu, sem eru ekki í Schengen, og leita endalaust að flugi en við erum auðvitað eyja úti í rassgati og það er ekki flogið svona langt hingað nema einhverjar leiguflugferðir vegna sumarfría og það er náttúrulega rándýrt að fá leiguflug fyrir einn einstakling. Ég er meira að segja búin að vera að skoða bátsferðir,“ segir Eyrún frá.
Gæti hún þá jafnvel hugsað sér að flytja úr landi til að krækja fyrir þetta vandamál?
„Ja, ef hann kemur ekki fyrir fæðingu fer ég auðvitað út um leið og ég má fljúga en það yrði bara heimsókn. Við munum sækja um aftur þegar hún fæðist, þá er náttúrulega komið barn í spilið og þá þurfa þeir eiginlega að horfa á þetta öðruvísi. Ég vil ala barnið mitt upp hér í öllu sem ég þekki,“ segir Eyrún en Revazi hefur þegar búið á Íslandi í fimm ár og er því kunnugur þjóðfélaginu.
„Við vorum úti í Georgíu í sumar og ég veit ekki alveg hvort ég gæti búið hér til lengdar, hann hefur búið alls staðar og segist geta búið nánast hvar sem er en menntunin mín fer náttúrulega ekki með mér hvert sem er,“ segir Eyrún, kennaramenntaður Íslendingur sem kennir í íslensku skólakerfi.
„Ég bara þarf Revazi, ég þarf stuðninginn frá honum til að geta staðið í öllu hinu líka,“ segir Eyrún Guðmundsdóttir að lokum.