Skerðing sem getur numið nokkrum milljónum

Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR, ræddi um tekjuskerðingu foreldra …
Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR, ræddi um tekjuskerðingu foreldra ungra barna. Mbl.is/Arnþór

Tekjuskerðing foreldra ungra barna í gegnum fæðingarorlof og umönnuarbil getur numið milljónum króna. 

Þetta kemur fram í nýrri greiningu hjá VR sem kynnt var á fundi í morgun. Hækkun leikskólagjalda, sem nýlega var boðuð hjá nokkrum sveitafélögum, eykur enn á tekjutap barnafólks í gegnum viðkvæman tíma og þá hafa stýrivaxtahækkanir lagst þungt á heimili landsins.

„Megin hugmyndin sem við vorum að skoða er hvernig foreldrar geta orðið fyrir tekjuskerðingu í fæðingarorlofi annars vegar og hins vegar í umönnurbili,“ sagði Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR, í samtali við mbl.is.

Foreldrar fá 80% af heildarlaunum sínum í fæðingarorlofi og fá að hámarki 600 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt.

„Með því að stilla upp einhverju dæmi, sem er sennilegt, þá tökum við hjón þar sem báðir aðilar eru með miðgildi heildarlauna VR sem eru 768 þúsund krónur á mánuði. Þá skerðast tekjur heimilisins um 1,2 milljónir króna í tólf mánaða fæðingarorlofi eða um 100 þúsund krónur á mánuði eftir skatt,“ segir Victor.

Hann segir þetta vera þungt launatap og eftir fæðingarorlof komi umönnuarbil, sem er tímabil þar sem fæðingarorlofi lýkur þar til fólk fær leikskólapláss fyrir börn sín, búi fólk oft við mikla tekjuskerðingu.

„Þessi tekjuskerðing getur oft verið vegna þess að fólk er að lækka starfshlutfall sitt til þess að annast börn sín. Annað dæmi sem við stillum upp er að þessi sömu hjón fá kannski pössun fyrir börnin í gegnum ömmu og afa eða ættingja og vini í tvo daga í viku en þurfa sjálf að dekka hina þrjá dagana og gera það með með því að lækka starfshlutfall sitt. Þá getur tekjuskerðing þessara foreldra numið 1,5 milljónum króna ef miðað er við meðallengd ummönnuarbils sem er 5,5 mánuðir.“

Victor segir að að kostnaðurinn við að koma einu barni inn á leikskóla geti verið um 2,7 milljónir króna fyrir venjulegan launamann hjá VR.

Arnaldur Grétarsson.
Arnaldur Grétarsson. mbl.is/Guðmundur

Hefur verið nánast vonlaust púsluspil

Á fundinum var rædd starfsemi leikskóla og mikilvægi þeirra og einn af þeim sem tók þátt í pallborðsumræðum á fundinum var Arnaldur Grétarsson, sem er fjögurra barna faðir. Hann kannast vel við það púsluspil að reiða sig á aðstoð ættingja og vina við að bregðast við frí- og starfsdögum í skólastarfi barna sinna.

„Þetta hefur verið nánast vonlaust púsluspil og mér finnst staðan núna erfiðari. Það þarf nauðsynlega að auka fjármagn í þennan málaflokk og þá bæði með hagsmuni leikskólastarfsfólks í huga og til þess að koma á móts við notendur kerfisins. Vandinn hefur hlaðist upp. Það hefur orðið mikil fólksfjölgun hér á höfuðborgarsvæðinu og það eru margir samverkandi þættir núna sem eru að herja á kerfið sem var brothætt fyrir,“ sagði Arnaldur við mbl.is.

Hann segir að staðan í dag sé með allra versta móti, en að hann hafi skilning á því sem Kópavogsbær hafi gert. Hefur sveitarfélagið reynt að draga úr heildar vistunartíma barna í viku með því að bjóða sex gjaldfrjálsa timaa á dag, en hækka á móti leikskólagjöld ef börnin þurfa að vera lengi. Þá hefur opnum leikskólum á frídögum verið fækkað og settar voru upp heimgreiðslur til foreldra.

„Ég skil að það sé farið út í þessar aðgerðir til þess að reyna að leysa vandann. En þarna er í raun verið að taka veigamikla pólitíska ákvörðun án þess að skoða endinn í upphafi. Þetta er einhver viðleitni til að vinna bug á vandanum en ég er samt ekki sammála um að þetta sé rétta lausnin.“

Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins,
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, mbl.is/Arnþór

Glærur frá fundinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert