Styttan af séra Friðriki verður tekin niður

Styttan af séra Friðrik Friðrikssyni verður tekin niður af núverandi …
Styttan af séra Friðrik Friðrikssyni verður tekin niður af núverandi stað. mbl.is/Árni Sæberg

Styttan af séra Friðriki Friðriksssyni á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs verður tekin niður og henni fundinn staður í listaverkageymslum Listasafns Reykjavíkur. Þetta var ákveðið á fundi borgarráðs í dag, en ákvörðunin kemur í kjölfar umfjöllunar og ásakana um að séra Friðrik hafi beitt drengi kynferðislegu áreiti eða ofbeldi.

Minnismerkið um séra Friðrik var reist árið 1955 í næsta nágrenni við þáverandi höfuðstöðvar KFUM og KFUK, að tilstuðlan gamalla nemenda séra Friðriks. Samið var við yfirvöld, ríki og borg, um staðsetningu og var einn af fremstu myndhöggvurum þjóðarinnar, Sigurjón Ólafsson, fenginn til verksins.

Ævisaga sem hleypti málinu af stað

Nú í haust sendi Guðmund­ur Magnús­son, sagn­fræðing­ur og fyrr­ver­andi blaðamaður á Morg­un­blaðinu, frá sér nýja ævisögu séra Friðriks, en þar greinir hann frá því að séra Friðrik hafi leitað á ung­an dreng, sem nú er kom­inn hátt á full­orðins­ár. Hafði sá sam­band við Guðmund, nú maður um átt­rætt, og sagði hon­um hvað á daga hans hefði drifið.

Guðmundur birti einnig bréf frá séra Friðrik til Eggerts Claessen frá árunum 1890 til 1895, en þá var Eggert 12 til 17 ára. „Þessi bréf vöktu for­vitni mína vegna þess hve inni­lega eða ástúðlega þau voru skrifuð. Mörg þeirra höfðu ásýnd ástar­bréfa eins og pilt­ar skrifuðu stúlk­um eða stúlk­ur pilt­um á þess­um tíma. Mjög lítið er varðveitt um sam­kynja ást­ir frá 19. öld, efnið var al­gjört tabú í gamla þjóðfé­lag­inu, og mér fannst ég þess vegna þurfa að kynna mér bet­ur hvernig sam­skipt­um þeirra Friðriks og Eggerts var háttað,“ skrifaði Guðmundur á vefsíðu sína í tilefni af útgáfu bókarinnar.

Svartur ruslapoki settur yfir styttuna

Talsverð umræða fór af stað eftir að fjallað var um ásakanirnar og óskaði meðal annars Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, eftir hugmyndum að nýrri styttu á þeim stað við Bernhöftstorfuna sem styttan stendur í dag.

Einhverjir borgarbúar ákváðu svo að taka málin í eigin hendur og settu svartan ruslapoka yfir styttuna nokkrum dögum eftir að málið komst í hámæli.

Þá rifjaði einnig Rúnar Guðbjartsson, sálfræðingur og fyrrverandi flugstjóri, upp stund frá árinu 1945, þegar hann var í sumarbúðum KFUM, þar sem sér Friðrik knúsaði hann og strauk. Hafði hann verið valinn ásamt nokkrum öðrum drengjum sem séra Friðrik vildi kynnast betur og fóru inn á herbergi til hans. 

Merking verksins breyst

Reykjavíkurborg leitaði í kjölfar ásakananna umsagnar KFUM og KFUK annars vegar og Listasafns Reykjavíkur hins vegar, um hvort taka ætti styttuna af stalli. Umsagnirnar liggja nú fyrir og hníga í sömu átt, það er að minnismerkið verði tekið niður. Þá verður umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar falið að koma með tillögur að frágangi svæðisins í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur.

Í umsögn Listasafns Reykjavíkur segir meðal annars að minnismerkið um séra Friðrik sé ein áhugaverðasta standmynd Sigurjóns. Í áranna rás hafi margir farið lofsamlegum orðum um listaverkið en að í ljósi nýrra upplýsinga og umræðu hafi merking verksins breyst. „Upplifun einstaklinga af listaverkum er mótuð af þeim tíma sem menn lifa og reynsluheimi hvers og eins,“ segir í umsögninni. „Þannig getur listaverk sem eitt sinn var minnisvarði og upphafning orðið að áminningu um það sem miður fer í samfélaginu. Fátt bendir til þess að þeir sem líta minningu séra Friðriks jákvæðum augum kjósi að verkið verði að slíku minnismerki auk þess sem fá samfélög reisa sér minnisvarða um eigin skömm.“

Allt hefur sinn tíma

Í umsögn KFUM og KFUK segir meðal annars að allt hafi sinn tíma. „Þegar styttur senda önnur skilaboð út í samfélagið en þeim var upphaflega ætlað þá er eðlilegt að borgaryfirvöld skoði að gera breytingar,“ segir í umsögninni. „Hlutverk okkar er að valdefla börn og ungmenni og gefa þeim gott veganesti út í lífið. Á þeirri mikilvægu vegferð hefur stytta af stofnanda félagsins lítið vægi.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka