Sýnist allt vera í toppstandi

Haraldur segist reyna að takast á stöðu mála í Grindavík …
Haraldur segist reyna að takast á stöðu mála í Grindavík með æðruleysið að vopni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Einarsson, íbúi í Grindavík, segist takast á við þróun mála á Reykjanesskaga undanfarnar vikur með æðruleysið að vopni.

Hann segir lítið fengið með því að hafa áhyggjur af því hvað framtíðin hafi í för með sér. 

Hundurinn glaður að kíkja heim

Blaðamaður mbl.is náði tali af Haraldi, sem lagt hafði leið sína til Grindavíkur í dag til þess að líta við húsi sínu og þrífa smávegis. Með Haraldi var hundurinn Dimma sem Haraldur segir hæstánægða með að vera komin aftur heim. 

„Hún var alveg brjáluð þegar hún kom inn í bæinn,“ segir Haraldur, en fyrir aftan hann hleypur Dimma um í garðinum og geltir ákaft. „Henni líður ekki illa hérna,“ bætir hann við. 

Að sögn Haraldar hafa engar skemmdir unnist á búslóðinni hans vegna jarðhræringanna að undanförnu.

„Mér sýnist allt bara vera í toppstandi eftir því sem ég get best séð. Það virkar allt, engar sprungur og ekki neitt.“

„Hefur allt sloppið ágætlega“

Haraldur, sem dvelur nú í íbúð á Bifröst, kveðst ekki hafa áhyggjur af því hvort fjölskyldan komist heim til Grindavíkur þegar líða fari að jólum.

„Ég ætla ekki einu sinni að stressa mig á því eða spá neitt í það. Annað hvort verður maður þar eða kominn hingað. Ég tek þessu með æðruleysinu bara. Það skeður það sem á að ske.“

Hann segir fjölskylduna alla hafa komist í húsnæði í kjölfar þess að rýma þurfti Grindavíkurbæ fyrir tæpum tveimur vikum. 

„Foreldrar mínir eru hjá bróður mínum á Álftanesi, önnur dóttir mín hjá vinkonu í Hafnarfirði og svo er hin dóttirin búin að búa lengi í bænum. Þannig að þetta hefur allt sloppið ágætlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert