Tæmdu Vínbúðina á mettíma

Aðkoman í Vínbúðinni var ekki skemmtileg.
Aðkoman í Vínbúðinni var ekki skemmtileg. Skjáskot/Facebooksíða Vínbúðanna

Það var heldur ófögur aðkoma í Vínbúðinni í Grindavík þegar starfsfólk fékk að fara þar inn í fyrsta sinn eftir að bærinn var rýmdur á dögunum. Brotnar vínflöskur voru á gólfinu og guðaveigar flæddu um allt. 

Frá þessu er greint á Facebooksíðu Vínbúðanna og þetta myndband sýnir hvernig aðkoman var. „Eftir að hópurinn komst inn tók ekki nema 50 mínútur að fylla bílana og nánast tæma búðina,“ segir á Facebook.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir í svari við fyrirspurn mbl.is að starfsfólk verslunarinnar hafi haft hraðar hendur á staðnum og einbeitt sér að vörum og búnaði. Hún kveðst því ekki vita hvort miklar skemmdir hafi orðið á húsnæðinu en í fljótu bragði virtist ekki svo vera. 

Þá segir Sigrún að tjón á vörum hafi ekki verið mikið en hún hafi ekki nákvæmar tölur þar um. „Langstærsti hluti þeirra vara sem náðist að bjarga fara í dreifingu í aðrar Vínbúðir,“ segir Sigrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka