Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Arna Dögg Einarsdóttir, eiginkona hans, tóku á móti forsetahjónunum Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Þar sem byggt hefur verið þétt til að koma upp aðstöðu fyrir starfsfólk Grindavíkurbæjar.
Guðni og Eliza verja deginum í opinberri heimsókn í Reykjavík í dag. Þar munu þau kynna sér starfsemi borgarinnar, þróun hennar og breytta samfélagsgerð.
Dagurinn byrjaði á fögrum tónum skólahljómsveitar Miðbæjar og Vesturbæjar, því næst var farið á skrifstofu Dags B. Eggertssona borgarstjóra áður en Guðni og Eliza heilsuðu upp á starfsfólk Grindavíkurbæjar, sem hefur aðstöðu í Ráðhúsinu um þessar mundir.
Dagur lýsti því fyrir forsetahjónunum að búið væri að þétta byggð í Ráðhúsinu og að það hefði verið gert á einungis tólf klukkustundum. Var það gert til að koma upp aðstöðu fyrir starfsfólk Grindavíkurbæjar.
Þá sló Guðni á létta strengi og sagði: „Það er sameining í kortunum.“
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, svaraði því þá til að Grindvíkingar hefði ekki endilega alltaf tekið alltof vel í sameiningar, það hefði ávalt verið sett til hliðar.
Því til stuðnings minntist hann á orð bæjastjóra í stórum bæ á Suðurnesjum sem sagði eitt sinn að allar þessar sameiningar myndu enda með því að sveitarfélögin yrðu einungis tvö á landinu, Grindavík og svo öll hin, við það uppskar Fannar mikinn hlátur.
Fannar lagði það þó að endingu til að Grindavíkurbær og Reykjavíkurborg myndu stofna til vinabæjar, enda ætti Grindavíkurbær einungis slík vinsambönd við bæi erlendis.