„Það eru bara 365 nætur á ári“

Dr. Ása Skúladóttir rannsakar dvergvetrarbrautir sem virðast órafjarri þessu fallega …
Dr. Ása Skúladóttir rannsakar dvergvetrarbrautir sem virðast órafjarri þessu fallega umhverfi á Álftanesinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég byrjaði bara í eðlisfræði við Háskóla Íslands og tók BS-próf í henni þar,“ segir dr. Ása Skúladóttir í samtali við mbl.is en segja má að hún sé, bókstaflega, komin býsna langt frá jarðneskri eðlisfræði þar sem nú ver hún drjúgum hluta tíma síns í niðamyrku umhverfi stjörnusjónauka hátt uppi í fjöllum Chile í Suður-Ameríku og rannsakar þar meðal annars dvergvetrarbrautir á sveimi umhverfis okkar eigin vetrarbraut.

Eins og málum er háttað í dag er Ása stjarneðlisfræðingur, en nánar tiltekið stjarnfornleifafræðingur, og hlaut í haust 218 milljóna króna styrk Evrópska rannsóknarráðsins til að vinna að verk­efni sínu „Trea­sures: Digg­ing into dwarf galax­ies“, sem mætti út­leggj­ast sem „Fjár­sjóðsleit meðal dverg­vetr­ar­brauta“, en því sinnir hún við Háskólann í Flórens á Ítalíu, þeirri fornfrægu höfuðborg Toskana-héraðsins sem þekkt er fyrir arkitektúr endurreisnarinnar.

Mun Ása gera grein fyrir rannsóknum sínum og starfi í fyrirlestri í stofu 132 í Öskju – náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands klukkan 20 í kvöld en hann er skipulagður í samstarfi við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjarnvísindafélag Íslands.

„Ég tók svo meistarapróf við Niels Bohr-stofnunina við Kaupmannahafnarháskóla,“ heldur Ása áfram frásögninni af tilurð íslensks stjarnfornleifafræðings en meistarapróf hennar var í stjarneðlisfræði þrátt fyrir að hún hafi að eigin sögn verið á báðum áttum og tekið nánast helming námskeiðanna í eðlisfræði.

Ekki aftur snúið

„Á þessum tíma var ég þó farin að hallast meira og meira að stjarneðlisfræðinni en það sem heillaði mig við hana var að útskýra náttúru sem maður getur séð frekar en að sökkva sér ofan í öreindafræði,“ segir doktorinn sem endaði með lokaverkefni sitt í meistaranáminu stjarneðlisfræðimegin. „Og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Ása sposk.

Frá dönsku höfuðborginni lá leiðin til Groningen í Hollandi þar sem hún vann doktorsverkefni sitt um dvergvetrarbrautirnar, sem hún nú rannsakar af elju, við Kapteyn-stjarnvísindastofnun Háskólans í Groningen. „Eftir það var ég nýdoktor í Heidelberg í Þýskalandi sem er eins konar Mekka stjarneðlisfræðinnar í Evrópu, ég held að þar séu fimm stofnanir í stjarneðlisfræði. Þetta er mjög frjósöm borg til að leggja stund á þessa grein,“ segir Ása alvöruþrungin.

En áfram hélt þetta hæga námsferðalag doktorsins í suðurátt í álfunni og hófst sá lokaleggur með símtali. „Samstarfskona mín hringdi í mig og sagði „heyrðu, ég var að fá styrk og ég ætla að ráða þig, komdu til Ítalíu,“ og þannig endaði ég á Ítalíu árið 2019,“ útskýrir Ása, en samstarfskonan í símanum var Stefania Salvatori, fræðilegur stjarneðlisfræðingur, og hjá henni gerðist Ása greinandi sem felst í því að greina rannsóknargögn langt utan úr himingeimnum.

Frábær, klár og öflug

„Við höfum alltaf unnið vel saman vegna þess að við erum með sérhæfingu sem passar vel saman og við þurfum svolítið hvor á annarri að halda og svo er þetta bara alveg frábær kona, klár og öflug, hvetjandi og með rosalegan drifkraft,“ segir Ása af ítölsku samstarfskonunni í Flórens, greinilega óraveg frá því að gefa upp alla von eins og letrað var ofan við innganginn að helvíti í verki eins frægasta rithöfundar sem Flórens hefur alið af sér, Dante Alighieri.

„Það skemmtilegasta við að starfa í Flórens, og það sem mun halda mér þar áfram, er að Stefania er með svolítið stóran hóp, hún fékk í raun fyrir fimm árum sama styrk og ég fékk núna og gat ráðið fullt af fólki og fór í að ráða hvort tveggja fólk sem er að greina gögn og fólk sem er að búa til líkön. Núna er ég inni í þessu umhverfi og mér finnst það alveg frábært. Þegar ég geri einhverja uppgötvun er strax farið í að túlka hana og setja hana í samhengi við líkönin og reyna að skilja hana og ef þau [samstarfsfólkið] eru með líkön en sjá að það vantar frekari útskýringar eða gögn geta þau strax farið í að sækja gögnin sem vantar til þess að dýpka skilning sinn. Þetta er rosalega góð samvinna,“ segir Ása af lífinu í Flórens sem greinilega er draumur hvers fræðimanns.

Það sama hyggst hún einmitt nýta sinn eigin styrk í – að ráða hvort tveggja fólk af fræðilega sviðinu og fólk sem annast söfnun gagna „og reyna að búa til frjótt umhverfi þar sem fólk getur unnið saman“, útskýrir hún.

Ítalska skriffinnskan ekkert grín

Nú sé það ferli í gangi að ráða hana sem prófessor í Flórens sem þó er ekki heiglum hent. „Það þarf að fara í gegnum ítölsku skriffinnskuna og hún er rosaleg get ég sagt þér,“ segir Ása og hlær, „ég bara krossa putta og vona að allt gangi upp, háskólinn vill fá mig og nú er verið að skila öllum gögnum inn til menntamálaráðuneytisins.“

En hvað er dr. Ása Skúladóttir þá að gera í vinnunni?

„Ég er að skoða stjörnur, aðallega í öðrum vetrarbrautum en líka í vetrarbrautinni okkar. Þannig háttar til að dvergvetrarbrautir eru á sporbaug um vetrarbrautina okkar á svolítið svipaðan hátt og tunglið er á sporbaug um jörðina og jörðin um sólina og svo framvegis. Þessar dvergvetrarbrautir eru stórmerkilegar, eða það finnst mér alla vega sem er kannski ekki hlutlaus skoðun,“ segir doktorinn og hlær á ný.

Dvergvetrarbrautirnar séu þær algengustu í heiminum, því minni sem vetrarbrautir séu því fleiri séu til af sama tagi. „Þetta eru fyrstu vetrarbrautirnar sem urðu til í heiminum þannig að þær voru heimkynni fyrstu stjarna heimsins sem eru töluvert öðruvísi en þær sem við sjáum í dag og það er einmitt eitt af því sem ég ætla að tala um í fyrirlestrinum,“ segir Ása.

Vetrarbrautir gleyptar

Dvergvetrarbrautirnar bjuggu okkar vetrarbraut til, að hennar sögn, sem þá var öllu minni en hún er nú en gleypti svo í sig æ fleiri minni vetrarbrautir og stækkaði eftir því. „Svo með því að skoða þessar dvergvetrarbrautir getum við lært heilmikið um hvernig okkar vetrarbraut varð til, úr hverju og hve langan tíma það tók. Með því getum við öðlast almenna vitneskju um hvernig stórar vetrarbrautir verða til, hvernig þær þróast, hvernig fyrstu stjörnurnar í heiminum urðu til og svo er ég líka að reyna að læra hvernig frumefnin urðu til, járn, súrefni, magnesíum og fleira, og hvernig þau dreifðust um allt og enduðu hjá mér og þér,“ útskýrir Ása af smitandi áhuga fyrir blaðamanni sem hafði megnan ímugust á efnafræði alla sína skólagöngu.

Þarna segir hún stjarnfornleifafræðina lifandi komna, „galactic archaeology“ á ensku, sem gangi út á að nota stjörnur sem nú séu á lífi til að læra um fortíðina, árdaga vetrarbrautarinnar hvorki meira né minna.

Vinna Ásu byggist mikið á hugmyndum. „Þetta er mun meira skapandi en fólk heldur. Ég fæ hugmynd um eitthvað sem ég vil rannsaka og finn út það sem ég þarf að skoða betur í tengslum við það og sæki svo um tíma í sjónauka,“ segir hún frá.

Evrópa skýjuð og ljósmenguð

Ekki sé hlaupið að þessu. „Það eru bara 365 nætur á ári og ekki hægt að gera allt á þeim tíma svo þá fer maður í samkeppni og skrifar umsókn um sjónaukatíma. Ef umsóknin er góð fær maður tímann og getur farið að heimsækja sjónaukann sem er ótrúleg upplifun,“ segir Ása.

Sjónaukinn í Chile, sem hún notar mikið, er í 2.600 metra hæð í miðri eyðimörk og næturhiminninn ólýsanlegur, „allt öðruvísi en maður sér alls staðar annars staðar“, segir Ása og er spurð út í sjónaukamál í Evrópu.

„Sjónaukar í Evrópu eru mest notaðir til kennslu nú til dags, það er gott að rækta hluti í Evrópu sem þýðir að það rignir svolítið mikið sem aftur þýðir að þar er oft skýjað sem er vandamál við notkun sjónauka. Ég er aðallega að skoða sýnilegt ljós og þá er ekki jákvætt að alltaf sé skýjað. Ofan á það er Evrópa svo þéttbýl að þar er mikil ljósmengun, hægt er að fá mun betri niðurstöður á einangruðum stöðum uppi á fjöllum,“ útskýrir Ása en greinir jafnframt frá því að evrópskar stofnanir eigi flesta sjónaukana í Chile.

Sem lengst frá fólki

„Við viljum komast sem lengst burt frá fólki og sem hæst upp og helst á eyðimerkurstaði þar sem rignir ekki neitt. Kannski ekkert sérstaklega heillandi fyrir venjulegt fólk,“ segir Ása kímin.

Í fyrirlestri sínum í kvöld mun Ása fjalla um starf sitt auk þess að kynna sitt næsta verkefni – stærstu rannsókn sem gerð hefur verið á dvergvetrarbrautum umhverfis okkar vetrarbraut. „Ég mun rannsaka yfir 100.000 stjörnur í öðrum vetrarbrautum en okkar og reyna að læra af þeim. Þess vegna kalla ég þetta fjársjóðsleit, ég gref inn í þessar litlu vetrarbrautir til að fá eins miklar upplýsingar og vitneskju og hægt er,“ segir doktorinn.

Aðspurð kveðst Ása ætla sér að vera í Flórens áfram komist hún gegnum ítölsku skriffinnskuna.

„Ég verð í raun í þessu næstu tíu árin, gögnin byrja ekki að koma fyrr en 2025 svo nú erum við bara að undirbúa, fólk áttar sig oft ekki á vinnunni á bak við svona stórar rannsóknir, ég byrjaði að undirbúa þetta árið 2019 og fæ fyrstu gögnin árið 2025. Við lærum alveg pottþétt eitthvað nýtt sem okkur hefði ekki einu sinni órað fyrir – og það er það sem mig langar mest, að læra eitthvað sem mér hefði ekki einu sinni dottið í hug,“ segir stjarnfornleifafræðingurinn dr. Ása Skúladóttir að lokum sem gera mun ítarlega grein fyrir rannsóknum sínum, straumum og stefnum í Öskju í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert