Áfram taldar líkur á eldgosi

Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli. Líklegast er …
Horft yfir hraunið við Grindavík og að Hagafelli. Líklegast er að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. mbl.is/Eggert Johannesson

Áfram eru  taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum við Svartsengi en í dag hafa tæplega 300 skjálftar mælst frá miðnætti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Þar segir einnig:

„Í gær mældust um 650 jarðskjálftar nærri kvikuganginum og frá miðnætti í dag hafa tæplega 300 skjálftar mælst. Langflestir skjálftanna eru undir 1 að stærð en stærsti skjálftinn síðustu tvo daga mældist 2.7 að stærð nærri Hagafelli. Áfram dregur úr skjálftavirkni.“

Land heldur áfram að rísa

Þar segir einnig að GPS-mælar sýni að þensla heldur áfram við Svartsengi og að aflögun mælist enn nærri kvikuganginum. 

Þó séu vísbendingar um að dragi úr hraða þenslunnar, sé horft á gögn síðustu viku. Flókið sé þó að túlka gögnin á þessu stigi. 

Það er vegna þess að önnur ferli eins og sprunguhreyfingar tengdar jarðskjálftum og seigfjaðrandi svörun jarðskorpunnar vegna umbrota á svæðinu hafa áhrif á aflögunarmerkin.

Eldgos líklegast á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells

Miðað við nýjustu samtúlkun allra gagna eru áfram taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum. Líklegast er að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells.

Á meðan að áfram dregur úr aflögun, skjálftavirkni og innflæði í kvikuganginn minnka líkurnar á eldgosi með tímanum að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert