Áhyggjuefni að stríðsátökum hafi farið fjölgandi

Katrín segir það ávallt afstöðu íslenskra stjórnvalda að fylgja beri …
Katrín segir það ávallt afstöðu íslenskra stjórnvalda að fylgja beri alþjóðalögum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Augljóslega er það þannig að við erum búin að sjá mikinn alþjóðlegan þrýsting á vopnahlé á Gasa, ég er ekki í nokkrum vafa um að sá stuðningur hefur skilað sér í þessu stutta afmarkaða hléi núna, en það breytir því ekki að maður hefur gríðarlegar áhyggjur af framhaldinu. Það er verið að leysa úr haldi hluta af gíslunum í skiptum fyrir aðra fanga og í raun og veru held ég að við höfum öll gríðarlegar áhyggjur af því hvað tekur við þegar þessu tímabundna hléi lýkur.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í ráðherrabústaðnum.

Katrín tók  í gær á móti 11.723 und­ir­skrift­um frá Am­nesty In­ternati­onal þar sem kraf­ist er vopna­hlés á Gasa. Í kjölfarið skrifaði hún á facebook síðu sína að stöðva þyrfti átökin, ekki tímabundið eins og samkomulag er um, heldur til frambúðar. 

Spurð hvort stjórnvöld í heiminum væru að einhverju leiti varnarlaus gagnvart því sem er að eiga sér stað fyrir Miðjarðarhafi, segir Katrín: 

„Við sjáum það bara, það er gríðarlegt áhyggjuefni, stríðsátökum hefur farið fjölgandi undanfarin ár, sem ber vott um að alþjóðleg lög eru ekki virt, þar með talið mannúðarlög og það er auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni fyrir þjóðir sem hafa lagt mikla áherslu og virðingu fyrir alþjóðalögum.“

Því til viðbótar áréttar hún að íslensk stjórnvöld séu búin að hvetja til þess að framganga ísraelskra stjórnvalda verði rannsökuð.  Þá hefur sérstakt framlag verið veitt, frá Íslandi, til stríðsglæpadómstólsins sem fer með rannsókn slíkra mála.

„Vegna þess að það er alltaf afstaða íslenskra stjórnvalda að alþjóðalögum ber að fylgja og þau ber að virða. Þeim fylgja vissulega réttindi en þeim fylgja líka skyldur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert