Alls konar ábendingar vegna þjófnaðar

Bolungarvík.
Bolungarvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á Vestfjörðum hefur fengið margar ábendingar í tengslum við rannsókn á þjófnaði í Bolungarvík um síðustu helgi.

„Við fengum alls konar ábendingar, m.a. eitthvað myndefni frá fyrirtækjum,” segir Þórir Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður.

„Þetta er í fullri vinnslu hjá okkur,” bætir hann við um rannsóknina og segir lögregluna vera með alla anga úti.

Lögreglan auglýsti í tilkynningu sinni eftir ábendingum frá fólki vegna málsins og einnig eftir myndefni úr öryggismyndavélum fyrirtækja. 

Spurður hvort einhver sé grunaður um þjófnaðinn segir Þórir ekki tímabært að ræða slíkt. Hann vill heldur ekki gefa upp hvort rætt hafi verið við vitni í tengslum við málið.

„Mikil verðmæti“

Hvað GPS-hattana varðar, sem voru teknir af vinnuvélum í eigu verktaka í bænum, segir hann að nokkrir slíkir hafi verið teknir.

Notast er við hattana þegar verið er að grafa ofan í jörðina varðandi dýpt og staðsetningu.

„Þetta er sérhæfður búnaður og mikil verðmæti,” segir Þórir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert