Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir aðalforsendu þess að Grindvíkingar fái að snúa aftur til síns heima vera að litlar líkur séu á því að rýma þurfi Grindavík skyndilega eins og gert var 10. nóvember.
„Það er eitt af öryggisatriðunum. Við viljum geta sagt við Grindvíkinga að það sé öruggt að búa í bænum og þá þarf ástandið að vera orðið þannig að við teljum okkur hafa fyrirvara á einhverjum umbrotum,“ segir Víðir í samtali við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar og almannavarna í ráðherrabústaðnum nú rétt fyrir hádegi.
Hann segir eina stærstu áskorunina vera fráveitukerfið. „Það eru nokkur atriði sem við þurfum að fá svör við. Við getum fengið svör við sumu, eins og ástandinu á lagnakerfinu í bænum. Sérstaklega eru menn að horfa á frárennslið sem getur verið mikil áskorun ef hallinn á því hefur breyst. Þá þurfum við að moka það upp og það getur verið stórmál,“ segir Víðir.
Erfiðara er að fá svör við því hvernig náttúran hagar sér að sögn Víðis. Ef ástandið er eins og það er núna þá minnka líkurnar á eldgos. Segir hann að þá hljóti að koma sá tímapunktur að vísindamenn segi að ástandið sé eins og það var um tveimur vikum áður en atburðarásin fór af stað.
„Hvenær það verður veit enginn,“ segir Víðir.
Hann segist ekki geta sagt til um hvenær það ástand skapist. Ef reynsla af eldgosum á Reykjanesskaga síðustu ár hafi kennt okkur eitthvað þá sé frekar verið að tala um vikur, eða í versta falli einhverja mánuði.
„En við erum ekki komin að þessum núllpunkti enn þá,“ segir Víðir.
Hann segir ljóst af skemmdunum á húsum og innviðum í bænum að fram undan sé tími mikillar uppbyggingar í Grindavík.
Spurður hvort skemmdir á húsum í bænum séu meiri eða minni en búist var við svarar Víðir að hann telji að þau séu færri. „Alla vega miðað við það sem er ljóst í dag, menn eru sammála um það að þetta eru færri hús en við áttum von á,“ segir Víðir.