Ekki talið óhætt að skoða sprunguna

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar skoðuðu sig um í Grindavíkurbæ í fylgd björgunarsveitarmanna.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar skoðuðu sig um í Grindavíkurbæ í fylgd björgunarsveitarmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var á slaginu tvö í dag sem hópferðabifreið renndi inn í Grindavíkurbæ með ráðherralið um borð. Með ráðherrunum í för voru, Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, Sig­ríður Björk Guðjóns­dótt­ir rík­is­lög­reglu­stjóri auk björgunarsveitarmanna. Hópferðabifreiðinni fylgdi bifreið með sérsveitarmönnum og blaðamenn í humátt á eftir. 

Ráðherrarnir sem heimsóttu Grindavík í dag voru þau Katrín­ Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra, Sig­urður Ingi Jó­hanns­son­ innviðaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðar­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra og Guðrún­ Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra. 

Sigurður Jóhann Ragnarsson ók rútu ráðherranna. Hann hefur keyrt síðan …
Sigurður Jóhann Ragnarsson ók rútu ráðherranna. Hann hefur keyrt síðan 2007 fyrir bæði Teit og Guðmund Tyrfingsson.

Ráðherrarnir skoðuðu dvalarheimilið Víðihlíð

Ráðherrarnir keyrðu um Grindavíkurbæ, um hafnarsvæðið og niður að gamla bænum, hjá gömlu kirkjunni, þar sem þau skoðuðu skemmdir.

Því næst fóru ráðherrarnir inn á rauða svæðið og að sprungunni, þó var ekki farið úr bifreiðinni við sprunguna. Var það, að sögn Víðis, vegna hreyfinga sem mældust við sprunguna og því ekki talið óhætt að fara úr bifreiðinni til að skoða sprunguna betur. 

Ráðherrarnir fóru því fyrst út úr bifreiðinni um hálf þrjú leytið í dag. Var það á bílastæðinu við dvalarheimilið Víðihlíð í Grindavík. Þar gengu þeir fylktu liði inn á dvalarheimilið, öll vel búin með hjálma, í fylgd björgunaraðila og Víðis. Ráðherrarnir stöldruðu við í Víðihlíð í um tuttugu mínútur og héldu svo för sinni áfram um Grindavíkurbæ. 

Dvalarheimilið Víðihlíð fór illa út úr skjálftunum.
Dvalarheimilið Víðihlíð fór illa út úr skjálftunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert