„Allar útgáfur af Dimmalimm seljast nánast strax upp, sagan er svo falleg og myndir Muggs einstakar,“ segir Ari Gísli Bragason, bóksali í Bókinni.
Á uppboði á vegum verslunarinnar sem nú fer fram á vefnum myndlist.is er að finna fágætt eintak af frumútgáfunni af Dimmalimm. Sem kunnugt er hefur mikill styr staðið um nýja útgáfu Dimmlimmar síðustu vikur og ljóst má vera að margir hafa í kjölfarið áhuga á að eignast frumútgáfu verksins.
Höfundur Sögunnar af Dimmalimm er Guðmundur Thorsteinsson, betur þekktur sem Muggur. Hann samdi og teiknaði söguna handa systurdóttur sinni Helgu Egilson árið 1921 á ferðalagi um Evrópu. Sagan var síðar gefin út og hefur notið vinsælda allar götur síðan. Þessi upprunalega útgáfa sem nú er á uppboði var gefin út af bókabúðinni Kron árið 1942.
„Þetta er gott eintak. Dimmalimm í þessari fyrstu útgáfu sést annað slagið, ekki oft, en það er kannski svona eitt eintak sem kemur fram á ári,“ segir Ari Gísli.
Bókin er metin á 45 þúsund krónur á uppboðinu en um miðjan dag í gær stóð hæsta boð í 33 þúsundum. Uppboðið stendur til 3. desember svo ekki má telja ólíklegt að Dimmalimm fari á hærra verði. „Það hafa komið margar fyrirspurnir og ég sé að nokkrir eru þegar að bjóða í bókina. Ég á frekar von á að bókin seljist vel yfir matsverði, fari jafnvel á 2-3-földu matsverði,“ segir bóksalinn.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.