Fjórir menn eru í haldi lögreglunnar vegna hnífaárásar sem átti sér stað í Grafarholti í nótt. Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
„Við erum með fjóra menn í haldi í tengslum við þessa árás,“ segir Ævar Pálmi í samtali við mbl.is.
Að sögn Ævars er líðan þess sem varð fyrir hnífaárásinni í nótt eftir atvikum. Hann segist ekki hafa upplýsingar um hvort hann sé í lífshættu en áverkarnir séu alvarlegir. Ævar staðfestir að árásin hafi átt sér stað í Grafarholti.
Ævar segir að eitt af því sem sé til skoðunar er hvort árásin í nótt tengist árás sem átti sér stað á Litla-Hrauni í gær en þar varð fangi fyrir alvarlegri líkamsárás að hálfu annars fanga og var hann fluttur á sjúkrahús.
Spurður hvort skotárásin í Silfratjörn í síðasta mánuði tengist atvikinu í nótt segist Ævar Pálmi ekki getað tjáð sig um það og að málið sé í rannsókn.