Grindvíkingar mega nú fara inn á stærri bílum

Frá Grindavík 17. nóvember.
Frá Grindavík 17. nóvember. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á morgun verða heimildir íbúa í Grindavík rýmkaðar til flutninga á munum sínum. Íbúum er áfram heimilt að fara inn í Grindavík til að sækja verðmæti og huga að eigum sínum frá klukkan 9-16 en þá eiga allir að yfirgefa bæinn.

Þetta kemur fram á vef almannavarna og þar segir enn fremur:

„Daglega fer fram mat á því hvort svigrúm verði til að halda óbreyttu fyrirkomulagi. Allar aðgerðir almannavarna eru miðaðar út frá öryggi og hagsmunum ykkar íbúa Grindavíkur og til að auðvelda að koma ykkur fyrir á sem bestan hátt á nýjum stað, þótt tímabundið sé.

Áfram ríkir hættustig almannavarna en líkur á fyrirvaralausu eldgosi eru taldar minni en áður var og svigrúm til þess að bregðast við eldgosi, eru taldar rýmri en áður. Öryggi ykkar er haft í fyrirrúmi og því gæti þurft að rýma bæinn með mjög stuttum fyrirvara.“

Hægt að fá heimild fyrir flutningabíla

Breytingarnar sem taka í gildi frá morgundeginum felast í því að nú er hægt að fá heimild fyrir flutningabíla til að flytja eigur og þurfa Grindvíkingar að sækja um það inni á Ísland.is.

„Aðgerðastjórn mun úthluta ykkur ákveðnum tíma til að fara inn með stóra bíla, og raða því eftir hverfum og götum eins og best er talið. Áfram er ykkur að sjálfsögðu heimilt að nota bíla þar sem einungis þarf almenn ökuréttindi, bílar sem eru allt að 3,5 tonn að heildarþyngd. Áfram er einnig heimilt að notast við kerrur,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert