Íbúðirnar kosta um 10 milljarða króna

Sigurður Ingi í Ráðherrabústaðnum í hádeginu í dag.
Sigurður Ingi í Ráðherrabústaðnum í hádeginu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reiknað er með því að íbúðirnar sem Bríet leigufélag ætlar að kaupa til að mæta húsnæðisþörf Grindvíkinga, muni kosta um það bil 10 milljarða króna.

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sem ræddi við blaðamann að loknum upplýsingafundi í Ráðherrabústaðnum í hádeginu.

Íbúðirnar sem um ræðir eru allt að 150 talsins. Einnig mun Bjarg íbúðafé­lag koma að því að mæta sér­stak­lega hús­næðisþörf tekju­lægri heim­ila í Grinda­vík með mögu­leg­um kaup­um á allt að 60 íbúðum.

Frá Grindavík í síðustu viku.
Frá Grindavík í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í samræmi við óskir Grindvíkinga

Sigurður Ingi segir að HMS og Bríet hafi síðustu daga og vikur verið að greina möguleikana sem séu í boði, en Bríet er alfarið í eigu ríkisins og á íbúðir víða.

„Séu þarfir Grindvíkinga að setjast að annars staðar er mögulegt að Bríet geti tekist á við það. En við erum fyrst og fremst að reyna að fjölga núna í jöfnum hlutföllum íbúðum annars vegar á Suðurnesjum og íbúðum hérna á höfuðborgarsvæðinu sem eru í samræmi við óskir Grindvíkinga,” segir ráðherrann og bendir á að íbúðirnar verði keyptar til að koma þeim tímabundið í leigu til Grindvíkinga. Ef þörfin verður minni á íbúðakaupum verður hægt að selja íbúðirnar aftur.

Spurður segir Sigurður Ingi að óvissa ríki um hversu margar íbúar þurfi. Miðað við stöðuna núna og greiningar sé líklegt að allflestir ef ekki flestir geti nýtt sér umræddar íbúðir, sem yrði þá öruggt húsnæði til lengri tíma.

Bríet telur að hægt verði að kaupa um 80 til 100 íbúðir, segir hann, á næstu vikum og svo annað eins þar á eftir, fyrir jól.

Blaðamannafundurinn var haldinn í hádeginu.
Blaðamannafundurinn var haldinn í hádeginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

12 vikur fyrir tilbúnar húseiningar

„Svo erum við að horfa á það í öðrum starfshópi að flytja inn tilbúnar húseiningar sem væri ýmist hægt að hafa tímabundið á lóðum og löndum sem væru til þess hæf eða þá varanlega á nýjum svæðum sem mörg sveitarfélög eru að bjóða fram líka,” greinir Sigurður Ingi frá.

Um 12 vikur telur að framleiða slík hús í ýmsum löndum Evrópu og stendur vinna yfir við að fara yfir gæði, skipulag, hönnun, staðsetningar og fleira til að hægt verður að panta slíkar einingar.

Hversu margar heldurðu að þurfi að panta?

„Fyrir einhverjum tíma voru menn að horfa á að við gætum þurft að skaffa einhverjar 600 íbúðir. Við erum að taka tæpar 200 hérna en auðvitað getur það breyst. Þessi jákvæðu tíðindi varðandi það sem er hugsanlega að gerast í Grindavík um að fólk geti hugsanlega snúið hraðar heim til húsa sem eru í betra ástandi en menn óttuðust getur auðvitað breytt talsvert mikið þörfinni. Við ætlum bara að vera tilbúin,” segir ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert